Styrk stoð í atvinnulífinu: Íslenskur sjávarútvegur

Efnahagssvið SA var með innlegg á Sjávarútvegsdeginum sem haldinn var í Hörpu miðvikudaginn 8. október. Þar flutti Ólafur Garðar Halldórsson, hagfræðingur á efnahagssviði SA, erindi um mikilvæg atriði tengdum íslenskum sjávarútvegi.

Í erindinu kom fram að íslenskur sjávarútvegur er bæði þjóðhagslega og alþjóðlega mikilvægur. Framleiðni á Íslandi er lág samanborið við önnur lönd en hún væri enn lakari ef ekki væri fyrir góða framleiðni í sjávarútvegi.

Íslenskur sjávarútvegur greiddi um þriðjung af hagnaði sínum til ríkisins á árinu 2013 á meðan aðrar atvinnugreinar greiddu almennt um 20%. Sjávarútvegur nýtur sérstöðu á alþjóðavettvangi því það er nánast ófrávíkjanleg regla að sjávarútvegur njóti ríkisstyrkja annars staðar.

Sérstakt veiðigjald hefur aukið skattbyrði sjávarútvegsins verulega en veiðigjöld voru yfir 6% af heildaraflaverðmæti á árunum 2012 og 2013. Þetta er umtalsverð hækkun en fyrir þann tíma var veiðigjaldið oftast í kringum 1% af heildaraflaverðmæti.

Fjárfestingar í sjávarútvegi hafa ekki verið nægjanlegar á undanförnum árum og hafa sjávarútvegsfyrirtæki fremur lagt kapp á að greiða niður skuldir. Uppsöfnuð fjárfestingarþörf í sjávarútvegi er umtalsverð og er skipaflotinn að miklu leyti úr sér genginn.

Sátt þarf að ríkja um framkvæmd og umfang skattheimtu á sjávarútveginn og hún þarf að vera fyrirsjáanleg, gagnsæ og skilvirk. Mikilvægt er að eyða óvissu sem ríkt hefur um álagningu veiðigjalda. Ef það verður ekki gert gætu neikvæð áhrif á fjárfestingar og hagræðingu í greininni dregið úr framleiðni og skert lífskjör á Íslandi.

Greining efnahagssviðs SA: Styrk stoð í atvinnulífinu