Skapa þarf rými til skattalækkana

Met verða slegin í ríkisútgjöldum gangi kosningaloforð stjórnmálaflokkanna eftir, en þau snúast að mestu um varanlega aukningu ríkisútgjalda. 

Ný greining efnahagssviðs SA 27. október 2017 (PDF)

Því fylgir mikil ábyrgð að stjórna ríkisútgjöldum þegar vel árar í efnahagslífinu því vöxtur skatttekna framkallar háværar kröfur um aukin útgjöld á öllum sviðum. Þá reynir á  framtíðarsýn og stefnufestu stjórnvalda.

Mikilvægt er að skapa skilning á hlutverki ríkisfjármála við jöfnun sveiflna. Þegar vel árar í efnahagslífinu þarf ríkissjóður að gæta aðhalds í útgjöldum til að jafna sveiflur og draga úr þenslu. Aukning ríkisútgjalda í efnahagsuppsveiflu mun óhjákvæmilega framkalla sársaukafullan niðurskurð í þeirri niðursveiflu sem kemur í kjölfarið og tekjustofnar dragast saman. Það er jafn vandasamt að stýra ríkissjóði í uppsveiflu og niðursveiflu í efnahagslífinu.

Fjárfest í menntun og heilbrigði
Kosningaloforðin snúast að miklu leyti um aukningu útgjalda til heilbrigðis- og menntamála enda er víðtæk pólitísk samstaða um forgang þessara tveggja málaflokka. Frá árinu 2012 hafa þeir verið í forgangi því útgjöld til þeirra hafa vaxið mun meira en heildarútgjöld ríkisins. Framlög hafa vaxið um 30% til heilbrigðismála, 15% til menntamála samanborið við 6% vöxt til allra  annarra málaflokka samtals. Helmingur aukningar ríkisútgjalda á þessu fimm ára tímabili hefur runnið til heilbrigðismála.

Útgjaldaloforð stjórnmálaflokkana þarf að skoða í því ljósi að opinber umsvif eru nánast hvergi meiri meðal þróaðra ríkja en á Íslandi. Opinber útgjöld, leiðrétt fyrir lífeyris- og bótagreiðslum, eru um 40% af landsframleiðslu samanborið við 36% að meðaltali í OECD-ríkjunum. Í því ljósi verða útgjöld til heilbrigðis- og menntamála ekki aukin enn frekar nema með því að draga úr ríkisútgjöldum á öðrum sviðum.

Ísland er háskattaland
Þeir stjórnmálaflokkar sem lofa mikilli aukningu ríkisútgjalda boða óhjákvæmilega miklar skattahækkanir. Í því efni er Ísland við ystu mörk. Danmörk og Svíþjóð eru einu þróuðu ríkin í heiminum sem leggja á hærri skatta. Þá er skattheimta á fyrirtæki sú hæsta á Norðurlöndum, eða 3,5% af landsframleiðslu samanborið við t.d. 2,2% í Finnlandi. Við bætist að íslensk fyrirtæki greiða nálægt 100 milljörðum króna í tryggingagjald til ríkisins. Mikilvægt er að hafa hugfast að allar skattahækkanir bitna að lokum á almenningi með einum eða öðrum hætti. Skattar á fyrirtæki draga úr getu þeirra til að hækka laun, fjölga starfsfólki og standast erlenda samkeppni. Skattar á fjármagnseigendur draga úr getu og vilja til fjárfestinga  og draga úr vexti efnahagslífsins og sköpun nýrra starfa.

Það er hvorki efni til aukningar ríkisútgjalda né rými til skattahækkana. Þvert á móti eru nú kjöraðstæður til að skapa svigrúm fyrir skattalækkanir með því að draga úr umsvifum ríkisins. Það eru tækifæri til að forgangsraða í rekstri ríkisins og nýta betur skattfé  landsmanna. 

Sjá nánar:

Ný greining efnahagssviðs SA 27. október 2017 (PDF)