Samkeppnisumhverfi fjármálafyrirtækja - hver borgar?

Vaxtamunur íslensku viðskiptabankanna hefur lækkað nokkuð á undanförnum árum en er þó enn töluvert meiri en hann var fyrir 2008. Hann er einnig meiri en hjá erlendum bönkum svipuðum að stærð. Þetta kom fram í erindi Óttars Snædal hagfræðings á efnahagssviði SA á opnum málfundi um bankakerfið í Valhöll í gær.

Enn fremur sagði Óttar mikinn vaxtamun íslensku bankanna megi að einhverju leyti rekja til ytra umhverfis bankanna, þ.e. smæðar landsins, fjármagnshafta og mikillar eiginfjárbindingar. Þó er ekki einungis við þá þætti að sakast en bankarnir eru dýrir í rekstri og er kostnaður þeirra hár samanborið við erlenda banka af svipaðri stærð.

Auknar skatta- og gjaldaálögur hafa mjög þyngt rekstur viðskiptabankanna. Álagnin slíkra skatta er til þess fallin að auka vaxtamun og þjónustugjöld og er því að uppistöðu borinn af viðskiptavinum bankanna. Áætlar efnahagssvið SA að sérstakur banka og fjársýslukattur sem bankarnir bera séu ígildi um 15% af vaxtamuni bankanna í dag.

Arðsemi viðskiptabankanna er nokkuð í línu við markaðskröfu á arðsemi eigin fjár og því lítið svigrúm fyrir minni arðsemi fjárfesta. Varanlegar álögur munu því á endanum koma fram í auknum vaxtamun sem viðskiptavinir bera og um leið draga úr samkeppnishæfni innlendra fjármálafyrirtækja. 

Sjá nánar:

Erindi Óttars má nálgast hér (PDF)