Ófullnægjandi aðhald ríkisfjármála: Er breytinga að vænta í fjármálum ríkisins?
Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands efndu til morgunverðarfundar um ríkisfármálin í morgun. Ásdís Kristjánsdóttir forstöðumaður efnahagssviðs SA, sagði á fundinum að fjárlagafrumvarpið 2015 beri ekki vott um róttækar breytingar á útgjaldahliðinni. Gert sé ráð fyrir afgangi á rekstri ríkisins en lítið megi út af bregða - afgangurinn gæti hæglega horfið gangi áætlanir ekki fyllilega eftir. „Eftirfylgni fjárlaga er ábótavant og aga skortir við afgreiðslu fjárlaga. Umframkeyrsla ríkisútgjalda einskorðast ekki við erfið rekstrarár. Það virðist vera regla fremur en undantekning að eytt sé umfram fjárheimildir,“ sagði Ásdís ennfremur.
Kynninguna má nálgast hér að neðan ásamt umfjöllun Viðskiptaráðs um fundinn en í kynningu Ásdísar kom m.a. eftirfarandi fram:
Skuldasöfnun hefur verið stöðvuð en eftir stendur viðkvæm skuldastaða. Vaxtakostnaður er meðal stærstu útgjaldapóst ríkisins í dag og aukin skattbyrði frá hruni fer að mestu í að greiða vaxtakostnað ríkisins.
Meginvandi ríkissjóðs liggur á útgjaldahliðinni. Ef ekki verður komið böndum á vöxt opinberra útgjalda verður ríkissjóður áfram skuldsettur og viðkvæmur fyrir áföllum. Setja þarf fram markvissari áætlanir um forgangsröðun og niðurskurð opinberra útgjalda. Auka þarf eftirfylgni fjárlaga og stöðva umframkeyrslu útgjalda miðað við áætlanir. Án eftirfylgni eru metnaðarfullar áætlanir gagnlitlar.
Sjálfbærni ríkisrekstrar verður ekki tryggð nema með niðurgreiðslu skulda í krónum talið. Ráðast þarf í frekari eignasölu til að grynnka á viðkvæmri skuldastöðu ríkissjóðs. Að öðrum kosti verður vaxtakostnaður of hár og takmarkað svigrúm til að létta skattbyrði af atvinnulífinu.
Sjá nánar:
Kynning Ásdísar Kristjánsdóttur: Ófullnægjandi aðhald ríkisfjármála: Er breytinga að vænta?