Óbreyttir stýrivextir í bili - samsetning hagvaxtar að breytast

Seðlabankinn tilkynnti óbreytta stýrivexti í morgun, þrettánda vaxtaákvörðunarfundinn í röð. Þrátt fyrir óbreytta vexti hefur peningalegt aðhald verið að aukast á síðustu misserum samhliða því að verðbólgan hefur gengið niður. Samhliða vaxtaákvörðun tilkynnti bankinn að regluleg gjaldeyriskaup myndu hefjast að nýju þann 18. júní. Tilgangur kaupanna er að nýta svigrúmið sem myndast venjulega á þessum tíma þegar gjaldeyrisinnstreymi er meira til að safna í óskuldsettan gjaldeyrisforða. Þetta kemur m.a. fram í nýrri umfjöllun efnahagssviðs SA.

Efnahagsslakinn er óðum að hverfa og verðbólguhorfur gætu því snögglega breyst til hins verra. Landsframleiðslutölur á fyrsta fjórðungi ársins eru staðfesting þess efnis að samsetning hagvaxtar sé að breytast. Sú þróun sem nú á sér stað endurspeglar mikilvægi þess að hið opinbera sýni aukinn aga sem mótspyrnu gegn innlendum neysluvexti komandi árum.

Staðan í dag er viðkvæm. Þrátt fyrir að spáð sé frekari hagvexti á næstu árum þá mun vöxturinn eiga sér stað innan hafta. Hætta er á að verðlagning eigna sé brengluð og undirstöður ekki traustar og því geti sagan endurtekið sig og hagkerfið ofhitnað, keyrt áfram af innlendri eftirspurn.

Viðbrögð efnahagssviðs SA við hagvaxtartölum á fyrsta fjórðungi ársins 2014 og vaxtaákvörðuninni í morgun má finna hér.