Mikið vatn hefur runnið til sjávar: Mikilvægi orku og veitugeirans fyrir lífsgæði Íslendinga
Það vill oft vera svo að þau gæði sem okkur þykja sjálfsögð geta verið þau allra mikilvægustu fyrir daglegt líf. Á það svo sannarlega við þau miklu gæði sem við Íslendingar njótum af náttúrunni okkar, varmanum og vatninu. Á síðustu áratugum hefur kraftur landsins verið færður inn á heimili landsmanna með gríðarlegri uppbyggingu innviða raforkuframleiðslu, vatns,-hita og fráveitu og þrátt fyrir að grunnforsendan sé að sjálfsögðu náttúrugæðin sjálf þá á uppbygging þessi stóran þátt í því að þessi eyja á hjara veraldar er í raun byggileg.
Byggileg er hún
Lífsgæðin sem fylgja því að okkur hefur tekist að færa okkur í not auðlindir landsins í daglegt líf eru öfundsverð í öllum alþjóðlegum samanburði.
Raforkan er ódýr og áreiðanleg
Íslendingar eru stórnotendur raforku enda er hún ódýr og stöðug hér á landi. Eigum við því að þakka að hafa fjárfest í virkjunum og dreifikerfum sem tengja okkur við þá endurnýjanlegu orku sem býr í fallvötnum og jarðavarma landsins. Er það mikil blessun að þurfa ekki að nýta jarðefnaeldsneyti til verksins líkt og flestar aðrar þjóðir.
Mestu vatnsauðlindir heims
Vatnsveita á Íslandi er einstök á heimsvísu enda býr engin önnur þjóð við jafn mikla gnótt endurnýtanlegs ferskvatns. Er það því engin furða að Íslendingar skrúfa mun meira frá krananum en aðrar þjóðir
Heitustu húsin með minnsta tilkostnaði
Svipaða sögu er að segja af hitaveitu á Íslandi en allt frá því að horfið var frá kolakyndingu á Íslandi á 20.öldinni hafa íslensk heimili verið funheit, hituð með jarðvarma. Heppileg landfræðileg lega er að sjálfsögðu grunnforsenda fyrir því að slíkt sé mögulegt en ekki þarf að leita lengra en til fjórða áratugar síðustu aldar til að finna deilur um hvort skipta ætti út kolunum fyrir heita vatnið. Íslendingar eru nú með einhver hituðustu heimili í heimi og um leið ódýrustu kyndinguna. Deilurnar er nú jafn gleymdar og kolaskýin sem áður lágu yfir borgum og bæjum.
Hreinar strendur ekki sjálfgefnar
Nýjasta framfaraskrefið í lífsgæðaflóruna er fráveitan. Mikið verk hefur verið unnið síðustu þrjá áratugi við að tengja landsmenn við skólphreinsistöðvar eru ekki meira en 30 ár síðan að skólpmengun í fjörum höfuðborgarsvæðisins þótti til skammar. Nú er öldin önnur og bera vinsældir sjósunds í þessum sömu fjörum þess berlega merki.
Heimilin greiða lítið fyrir notkun sína
Sú vegferð okkar að nýta náttúruauðlindirnar í daglegu lífi hefur ekki bara yljað okkur og svalað heldur einnig aukið kaupmátt landsmanna markvert. Rafmagn og húshitun er í mörgum ríkjum stór útgjaldapóstur heimila en Íslendingar búa svo vel að þurfa að nota minni skerf að ráðstöfunartekjum sínum til að greiða fyrir rafmagn og húshitun en aðrar þjóðir. Fyrir sömu notkun þyrftu hjón í Reykjavík t.a.m. að greiða þrefalt verð væru þau búsett í Kaupmannahöfn.
Þjóðarbúið sparar yfir 100 milljarða árlega
Nýting íslenskrar orku er því þjóðhagslega hagkvæm og hleypur ávinningur þess að nota endurnýjanlega orkugjafa á tugum milljarða á ári hverju. Væru Íslendingar að nota jafn hátt hlutfall óendurnýjanlegrar orku við rafmagnsframleiðslu og húshitun og ríki OECD gera að meðaltali þá væri árlegur kostnaður þjóðarbúsins um 110 milljörðum króna meiri
Stærsta framlagið til alþjóðlegra umhverfismála
Íslensk orkunýting er ekki síður umhverfisvæn. Má segja að eitt mesta framlag Íslands til minnkunar útblásturs á gróðurhúsalofttegundum séu virkjanaframkvæmdir síðustu aldar og þessarar. Þó skiptar skoðanir geti verið um fýsileika virkjana vegna landverndarsjónarmiða er það morgunljóst að nýting íslenskrar endurnýjanlegrar orku bæði fyrir heimili og iðnað er hagkvæm sé markmiðið að draga úr losun koltvísýrings og þar með sporna gegn hlýnun jarðar.
Orkuháður iðnaður mengar minnst á Íslandi
Væru Íslendingar að nýta jarðefnaeldsneyti í sama mæli og aðrar þjóðir væri umhverfissporið umtalsvert meira. Notkun heimila og annarra almennra notenda myndi skila 26 sinnum meiri útblæstri CO2 nýttum við hlutfallslega jafn mikið af jarðefnaeldsneyti og ríki OECD og ef stóriðjan sem hér er væri staðsett í ríki þar sem olía væri notuð væri það á við að þrefalda árlegan útblástur af CO2 á Íslandi.
Íslensk orka, beislun hennar og nýting, er því ekki einungis heillaskref fyrir fjárhag heimila og nærumhverfi hins hefðbundna Íslendings heldur um leið risavaxið framlag landsmanna í baráttunni gegn hraðri hlýnun jarðar.
Sjá nánar:
Greining efnahagssviðs SA: Mikið vatn hefur runnið til sjávar (PDF)
Greiningin var kynnt á Ársfundi Samorku 2017 sem fram fór í Hörpu 2. mars.