Lánalenging á Landsbankabréfinu - hvers vegna mikilvæg?

Viðskiptaafgangur síðustu ára hefur að meðaltali verið 3% af VLF. Lágt raungengi, innlend eftirspurn í sögulegu lágmarki og ótrúlegur vöxtur ferðaþjónustu hefur skilað auknum þjóðhagslegum sparnaði til þjóðarbúsins. Miðað við óbreyttan endurgreiðsluferil þarf þjóðarbúið að auka enn frekar við  sparnað til að mæta afborgunum á komandi árum. Endurgreiðsluferill þjóðarbúsins er of þungur og útlit fyrir að hröð uppgreiðsla lána í erlendri mynt muni að öðru óbreyttu setja of mikinn þrýsting á gengi krónunnar og ógna stöðugleika í íslensku efnahagslífi.

Þann 8. maí sl. var undirritað samkomulag milli Landsbankans og LBI um breytingar á uppgjörsskuldabréfum sem samið var um í desember 2009. Eftirstöðvar bréfanna eru að jafnvirði 226 milljarða króna og er fyrirvari í samkomulaginu að tilteknar undanþágur fáist í samræmi við lög um gjaldeyrismál. Samkvæmt ummælum forsætisráðherra verður ekki veitt undanþága frá gjaldeyrislögum vegna Landsbankaskuldabréfsins fyrr en heildstæð lausn er fundin á helstu þáttum er varða afnám hafta. Samkomulag um lánalengingu á Landsbankabréfinu er mikilvægur liður í afnámsferlinu.

Næsta skref er að finna lausn á uppgjörum þrotabúa Glitnis og Kaupþings þannig að slit búanna raski ekki stöðugleika.  Ef vel tekst til að finna lausn á vanda þrotabúanna mun tiltrú aukast á afnámsferlinu sem gerir eftirleikinn auðveldari. Framtíðarhorfur í íslensku efnahagslífi munu á endanum velta á losun fjármagnshafta og mun farsælt afnám þeirra mun tryggja betra aðgengi innlendra fyrirtækja að erlendum lánsfjármörkuðum.

Hér má finna greiningu efnahagssviðs SA:

Lánalenging á Landsbankabréfinu - hvers vegna mikilvæg?