Komið þið fagnandi: Uppgangur og áskoranir íslenskrar ferðaþjónustu

Efnahagssvið Samtaka atvinnulífsins kynnti greiningu sína á íslenskri ferðaþjónustu á opnum umræðufundi SA 7. september í Hörpu. Nefnist greiningin „Komið þið fagnandi“ og fjallar um mikinn uppgang íslenskrar ferðaþjónustu á undanförnum árum, þýðingu hans fyrir innlent hagkerfi og ekki síst þær áskoranir sem uppganginum fylgja fyrir greinina.

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs, flutti erindi sem bar nafnið „Af hverju Ísland“. Fjallaði hún þar um mikinn vöxt ferðaþjónustunnar langt umfram bjartsýnustu spár og víðtæk áhrif greinarinnar á íslenskt samfélag. Hún sagði ýmsar ástæður að baki auknum ferðamannafjölda. „Gengisfall krónunnar árið 2008 jók samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar á alþjóðavísu um hríð en í dag ber hæst aukin vitund erlendis um Ísland og hvað landið hefur upp á að bjóða.“

undefined

Ásdís benti á að þrátt fyrir framleiðniaukningu í greininni, samfara jafnari dreifingu ferðamanna, þá væri rekstrarumhverfi íslenskrar ferðaþjónustu krefjandi.

 „Laun hafa hækkað umtalsvert og hefur það veruleg áhrif á eins vinnuaflsfreka grein og ferðaþjónustu. Við það bætist hátt vaxtastig, en fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa flest skuldbindingar í íslenskum krónum, og mikil styrking krónunnar frá árslokum 2013 sem hækkar innlend verð í öðrum gjaldmiðlum.“ Að sögn Ásdísar er svo komið að Ísland er orðið meðal dýrustu landa sé miðað við þau ríki sem við oftast berum okkur saman við.

undefined

Ásdís hvatti til skýrrar stefnumótunar. „Í dag er sjónum í auknum mæli beint gegn ferðaþjónustu að því leyti að umræðan snýst fyrst og fremst um aukna skattlagningu. Huga þarf að sjálfbærni greinarinnar til langs tíma og stuðla að eðlilegu rekstrarumhverfi.“ Það er að mati Ásdísar best til þess fallið að hámarka arð þjóðarinnar til lengri tíma af þessari nýju meginstoð í innlendu hagkerfi.

Einnig flutti erindi Óttar Snædal hagfræðingur á efnahagssviði SA. Erindi Óttars tók á þeim áskorunum sem fylgja mikilli ásókn ferðamanna á takmarkaða auðlind sem íslenskar náttúruperlurnar eru.

undefined

„Þó ekkert sé víst í þeim efnum bendir margt til áframhaldandi fjölgunar ferðamanna á komandi árum. Sú staðreynd að þegar sjást hættumerki á vissum náttúrusvæðum vegna mikils ágangs ferðamanna sýnir svo ekki verður um villst að nauðsynlegt er að bregðast við ef ekki á illa að fara.“

Óttar sagði aðgangsstýringu nauðsynlega, sérstaklega á þeim ferðamannastöðum þar sem ágangurinn er mestur, en einnig þurfi að afla tekna til uppbyggingar og viðhalds.

undefined

„Besta leiðin til að bæði aðgangsstýra og afla tekna frá þeim sem sannarlega njóta auðlindanna er að taka upp gjaldtöku á stöðunum. Gjaldtakan virkar bæði sem aðgangsstýring auk þess að fjármagna þá þjónustu sem þar er veitt,“ sagði Óttar og bætti við að þær hugmyndir sem mest hefðu verið reifaðar snéru flestar einungis að tekjuöflun en litu framhjá hinni nauðsynlegu aðgangsstýringu.

Greining efnahagssviðs SA (PDF)

Erindi Ásdísar (PDF)

Erindi Óttars (PDF)