Kjarasamningur 2015: Stöðugleika loksins náð - lærum af reynslunni

Víðtæk áhrif kjarasamninga eru vel þekkt á Íslandi. Samningar um launahækkanir umfram efni hafa ávallt skilað sér í hærra verðlagi og hefur engin breyting orðið á þjóðarbúskapnum til að ætla að annað sé upp á teningnum nú. Þetta segir m.a. í nýrri greiningu efnahagssviðs SA en þar er bent á að Seðlabankinn hafi sýnt það í verki að hann bregðist fljótt við aukinni verðbólgu með hækkun vaxta. Ekki þarf að líta lengra en til síðustu tveggja kjarasamninga til að staðfesta það. Í kjölfar mikilla launahækkana 2011 hækkaði bankinn vexti en frá síðustu kjarasamningum hafa vextir lækkað.

Landsmenn eru ekki einungis launþegar, þeir eru einnig skuldarar, neytendur og atvinnurekendur. Íslensk heimili eru ekki aðeins næm fyrir verðbólgu heldur einnig vaxtastigi. Aukin ásókn heimila í óverðtryggð lán hefur gert þau viðkvæmari fyrir vaxtabreytingum og þannig aukið áhrifamátt peningastefnunnar. Sú lækkun greiðslubyrði sem af „Leiðréttingunni“ hlaust væri t.a.m. fljót að ganga til baka hjá mörgum lántakendum við miklar vaxtahækkanir.

Til að mynda áætlar efnahagssvið SA að meðal vaxtakostnaður 15 milljóna króna óverðtryggðs láns myndi aukast um 30 þúsund krónur á mánuði hækki almenn laun til jafns við nýsamþykktar launahækkanir lækna.

undefined

Kjarasamningar eru eitt helsta stjórntæki íslenskrar hagstjórnar. Miklu skiptir því að launahækkanir séu í samræmi við verðmætasköpun fyrirtækja. Á þetta við um bæði almennar hækkanir og sérstakar krónutöluhækkanir, en þær hafa skilað sér í sambærilegri hækkun upp launastigann. Leiðin til að bæta lífskjör til langframa er að byggja á traustum stoðum og forðast framúrkeyrslur og efnahagsskelli.

Meðfylgjandi greining efnahagssviðs fjallar um kjarasamninga fyrri tíma og áhrif þeirra á íslenskan þjóðarbúskap. Einnig er að finna sviðsmyndagreiningu mismunandi kjarasamninga þar sem metin eru verðbólguáhrif og hvernig þau smitast yfir í aðrar hagstærðir s.s. gengi og framleiðni.

Sviðsmyndirnar eru þrjár. Sú fyrsta gerir ráð fyrir almennum launahækkunum skv. ráðleggingum Seðlabankans, önnur gerir ráð fyrir hækkunum umfram það, svipuðum og í kjarasamningunum árið 2011. Þriðja og síðasta sviðsmyndin gerir ráð fyrir að laun á almennum vinnumarkaði hækki að sama marki og samið var um við lækna nú fyrir skömmu.

Greining efnahagssviðs SA:

Er björninn unninn? Stöðugleika loksins náð, en óvissa framundan (PDF)

Hvað ef? Sviðsmyndagreining ólíkra kjarasamninga (PDF)