Íslenskur sjávarútvegur: Blikur á lofti á alþjóðlavettvangi

Mikilvægi sjávarútvegs í íslensku efnahagslífi er óumdeilt. Framlag fiskveiða og fiskvinnslu til landsframleiðslu var 8,4% á síðasta ári og er greinin ein af stærstu útflutningsgreinum landsins. Heildarútflutningsverðmæti sjávarafurða var 244 ma.kr. á síðasta ári eða sem nemur fjórðungi af heildarútflutningi þjóðarbúsins. Þá námu bein opinber gjöld sjávarútvegsins alls um 26,4 ma.kr. árið 2013. Á síðasta ári störfuðu ríflega 9.000 manns við fiskveiðar og fiskvinnslu en það jafngildir um 5% af heildarfjölda starfandi á Íslandi.

Blikur eru nú á lofti fyrir íslenskan sjávarútveg. Viðskiptabann Rússlands, möguleg lokun Nígeríumarkaðar, áhyggjur af lækkandi heimshagvexti ásamt lakari samkeppnisskilyrðum samhliða styrkingu raungengis eru allt þættir sem snerta atvinnugreinina, tekjur hennar og þar með heildarhagsmuni þjóðarbúsins.

Mest eru áhrifin af innflutningsbanni Rússa. Efnahagssvið SA hefur metið þau á bilinu 11-17 ma.kr. en hlutfallslega hefur bannið mest áhrif á Ísland af löndum EES. Lokun Nígeríumarkaðar gæti einnig leitt til um 6 ma.kr. samdráttar í útflutningsverðmætum en landið er helsti markaður Íslendinga fyrir þurrkaðar afurðir.

undefined

*Tölur fyrir Ísland m.v. það sem fer til Rússlands skv. opinberri skráningu, með viðskiptabanni er áætlun.
**Án viðskiptabanns: sept. 2013-feb. 2014. Með viðskiptabanni: sept. 2014-feb2015

Áhrif viðskiptabannsins og lokun Nígeríumarkaðar á byggðarlög í landinu eru mismunandi en tekjutap sjómanna og landverkafólks við uppsjávarveiðar og vinnslu vegna viðskiptabanns Rússa hafa verið metin 1-2,5 ma.kr. á ársgrundvelli.

Lakari heimshagvöxtur gæti einnig haft sín áhrif en fyrir hverja prósentu lækkun á heimsmarkaðsverði á fiski dragast útflutningsverðmæti saman um 2,4 ma.kr. Lækkun olíuverðs hefur þó að sama skapi dregið verulega úr olíukostnaði útgerða og er hann nú um 6,5 ma.kr. lægri en í fyrra.

Heildaráhrif þessara þátta á þjóðarbúið eru skv. útreikningum efnahagssviðs SA neikvæð um á bilinu 16-21 ma.kr. eða sem nemur um 0,7%-0,9% af landsframleiðslu.

undefined

Sjá nánar:

Íslenskur sjávarútvegur: Blikur á lofti á alþjóðavettvangi (PDF)