Í íslenskri sveiflu: Hagræn þýðing og staða íslensks byggingariðnaðar

Hlutfallslegt framlag byggingariðnaðarins til landsframleiðslu sveiflast mun meira en í öðrum atvinnugreinum á Íslandi. Þetta kom m.a. fram í máli Ásdísar Kristjánsdóttur forstöðumanns efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins á ráðstefnu Samtaka iðnaðarins, stefnumót íslensks byggingariðnaðar, sem fram fór á Grand Hótel Reykjavík í morgun. Í nýrri greiningu efnahagssviðs SA kemur fram að framlag byggingariðnaðarins til landsframleiðslu mældist hæst um 12% árið 2006 en hefur verið um 5% eftir efnahagsáfallið 2008.

Atvinnugreinin er mjög næm fyrir sveiflum í hagkerfinu og skreppur hraðar saman í niðursveiflu en aðrar framleiðslugreinar en tekur jafnframt hraðar við sér þegar hagkerfið vex á ný. Þrátt fyrir að ekki sé um séríslenskt samband að ræða þá býr byggingariðnaðurinn á Íslandi við meiri sveiflur en almennt er í öðrum iðnríkjum.

undefined

Skuldir byggingariðnaðarins jukust hratt á bóluárunum 2003-2008 og í kjölfar hrunsins þurrkaðist eigið fé greinarinnar upp. Á undanförnum árum hefur hún þó verið að byggja sig upp á ný og svipar nú bæði skulda- og eiginfjárstaða byggingariðnaðarins til stöðunnar eins og hún var árið 2003 þegar hagkerfið var í þokkalegu jafnvægi.

Framleiðni í byggingariðnaði hefur frá árinu 1997 farið úr því að vera mikil í að vera lítil samanborið við aðrar atvinnugreinar. Óvissa og sviptingar í rekstrarskilyrðum fyrirtækja draga úr samkeppnisstöðu þeirra og leiða til minni framleiðni og lakari kaupmáttar.

undefined

Litið til framkvæmdatoppa í byggingarsögu Íslands síðastliðna áratugi má að stórum hluta skýra þá með aðkomu stjórnvalda. Aðkoman hefur ýkt uppsveiflur í greininni og orðið til þess að aðlögunin í niðursveiflum hefur verið brattari. Mikilvægt er að undirliggjandi efnahagsþættir verði grundvöllur vaxtar í byggingariðnaði fremur en aðgerðir stjórnvalda.

Sjá nánar:

Í íslenskri sveiflu: Hagræn þýðing og staða íslensks byggingariðnaðar