Hvert höldum við héðan? Staða og horfur í efnahagsmálum

Sjaldséður stöðugleiki hefur ríkt í íslensku efnahagslífi undanfarin misseri. Talsverðar áskoranir eru framundan hjá öllum örmum hagstjórnar.  Þetta er meðal þess sem kom fram í hádegiserindi Ásdísar Kristjánsdóttur um stöðu og horfur í íslensku efnahagslífi.

Einn armur hagstjórnar er vinnumarkaðurinn, en óhætt er að segja að hann hafi misst tökin nýlega þegar samið var um launahækkanir langt umfram þá verðmætasköpun sem framundan er og launahækkanirnar þurfa að byggja á. Ástæða þess að verðbólga er þó enn lág er öðru fremur vegna þess að innfluttar vörur hafa lækkað í verði samhliða gengisstyrkingu krónunnar.

Ólíklegt er annað en að raungengi krónunnar hækki umtalsvert við þessar aðstæður og mun það grafa undan samkeppnisstöðu landsins. Umsamdar launahækkanir koma sérstaklega illa við vinnuaflsfrekar atvinnugreinar á borð við ferðaþjónustuna.

Annar armur hagstjórnar er peningastefna Seðlabankans, en þar hefur verið brugðist við versnandi verðbólguhorfum með hækkun stýrivaxta. Samhliða vaxtahækkunum bankans hafa vaxtamunarviðskipti hafist á ný og við það raungerðist annars konar vandi. Ríflega 50 ma.kr. streymdu inn til landsins á fyrstu 9 mánuðum ársins og jafnvel þó að umfangið hafi ekki verið meira þá komu áhrifin berlega í ljós á skuldabréfamarkaði. Ávöxtunarkrafan lækkaði þrátt fyrir stýrivaxtahækkanir og er það því áhyggjuefni að ekki hærri fjárhæðir þurfi til að hnökrar myndist í miðlunarferli peningastefnunnar.

Gjaldeyriskaup Seðlabankans eru okkur ekki að kostnaðarlausu, en áætlað er að árlegur vaxtakostnaður vegna gjaldeyriskaupa Seðlabankans sem af er ári nemi um 12 ma.kr. og þar af renna um 4 ma.kr. í vasa erlendra spákaupmanna. Til einhvers var þó unnið en samfara verulegu innflæði gjaldeyris hefur Seðlabankanum tekist að byggja upp myndarlegan gjaldeyrisforða. Undanfarin ár hefur Seðlabankinn verið eini virki aðilinn á kauphlið gjaldeyrismarkaðar en nú er tími til kominn að opna fyrir gjaldeyriskaup innlendra aðila. Slík aðgerð hefur ekki kostnað í för með sér fyrir Seðlabankann og myndi um leið létta á þrýstingi innlendra aðila til fjárfestinga erlendis og minnka álagið þegar til losunar hafta kemur.

Þriðji armur hagstjórnar er fjármálastefna hins opinbera. Margt jákvætt hafi áunnist í ríkisrekstri á síðustu árum og því ber að fagna, ekki aðeins hefur jafnvægi verið náð í ríkisrekstri heldur er einnig verið að ráðast í mikilvægar og jákvæðar breytingar á tekjuhlið.  Almenn vörugjöld hafa verið afnumin, tekjuskattur einstaklinga lækkaður og stefnt er að niðurfellingu tolla.  Sporna þarf hins vegar við þensluáhrifum. Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2016 ber þess ekki merki að sú hugsun hafi náð í gegn en tilfinnanlegur skortur er á aðhaldi í útgjöldum. Þá  hafa tækifæri til betri forgangsröðunar verið illa nýtt og einstakar stofnanir fengið að blása út á sama tíma og verulega hefur verið skorið niður í heilbrigðis- og menntamálum. Slíkt er óásættanlegt og ætti að vera auðsótt samstaða um að breyta.

Kynningu Ásdísar má finna hér:

Hvert höldum við héðan?