Hvað þjónar okkur best? Þjóðhagslegt mikilvægi þjónustugreina

„Mikilvægi þjónustugreina er óumdeilt. Á Íslandi starfar fimmti hver vinnandi maður við þjónustu á almennum markaði og hefur umfang þjónustugreina vaxið mikið á undanförnum árum og áratugum. Árið 2014 var um 27% af landsframleiðslu tilkomin vegna þjónustu einkaaðila og að opinberri þjónustu viðbættri er um helmingur allra umsvifa í hagkerfinu komin frá þjónustugeiranum.“ Þetta kom m.a. fram í erindi Ásdísar Kristjánsdóttur, forstöðumanns efnahagssviðs SA, á ráðstefnu SVÞ sem haldin var í tengslum við aðalfund samtakanna.

Ásdís fjallaði um þjóðhagslegt mikilvægi þjónustu á Íslandi en glærur hennar má nálgast hér að neðan. Í erindi hennar kom eftirfarandi m.a. fram:

„Þjónusta er margskonar, allt frá fjarskiptaþjónustu til endurskoðunar, frá kennslu til leigustarfsemi. Erfitt er því að alhæfa um greinina sem slíka en þó má segja að vöxtur hennar sé merki um framþróun þjóðar. Sterkt samband er milli velmegunar ríkja og hlutdeildar þjónustugreina í landsframleiðslu. Vanþróaðri ríki treysta í meiri mæli á frumframleiðslu, landbúnað eða mannfrekan iðnað, en aukið menntunarstig og sérhæfing eykur veg þjónustu og skapar fjölbreyttara atvinnulíf.

Þjónustugreinar eru sveigjanlegar, þær geta dregist hratt saman ef illa árar en eru oft fljótar að taka við sér þegar skilyrði skapast fyrir því á ný. Eftir efnahagsskellinn síðasta hefur þjónustugeirinn t.a.m. náð sér nokkuð vel á strik. Skuldir hafa lækkað, afkoman hefur batnað og svipar staða geirans nú um margt til þess sem var árið 2003 þegar hagkerfið var í þokkalegu jafnvægi.

Margt má þó bæta. Framleiðni á Íslandi er lág í alþjóðlegum samanburði en þjónustugreinar, líkt og aðrar staðbundnar greinar, líða fyrir smæð heimamarkaðar sem gerir þeim erfitt að ná almennilegri stærðarhagkvæmni í rekstri. Framleiðni er þó enn lægri í opinberri þjónustu. Svigrúm er til að auka hagkvæmni hjá hinu opinbera með því að færa rekstur til einkaaðila.

Ef þjónusta er þess eðlis að samstaða er um að ríkið fjármagni hana er einkarekstur góð leið til aukinnar framleiðni. Ávinningurinn felst í aukinni samkeppni, sérhæfingu og sveigjanleika, sem allt stuðlar að aukinni framleiðni og þar með bættum lífskjörum.“

Nálgast má erindi Ásdísar hér.