Heilbrigð samkeppni: Áskoranir og tækifæri í íslenskri heilbrigðisþjónustu
Efnahagssvið Samtaka atvinnulífsins kynnti í morgun greiningu sína á íslensku heilbrigðiskerfi á opnum umræðufundi Samtaka atvinnulífsins, Samtaka heilbrigðisfyrirtækja og Samtaka verslunar og þjónustu. Nefnist greiningin „Heilbrigð samkeppni: Áskoranir og tækifæri í íslenskri heilbrigðisþjónustu“
Þó íslenska þjóðin sé ein sú yngsta meðal OECD ríkja þá eldist hún hratt.
Einstaklingar eldri en 65 ára eru nú ríflega 13% Íslendinga en áætlað er að árið 2040 verði þeir orðnir nærri fjórðungur. Mikil fjölgun í eldri aldurshópum er því handan við hornið.
Öldrun þjóðarinnar verður skattgreiðendum dýr.
Á sama tíma og öldruðum mun fjölga hratt mun fjöldi þeirra sem er á vinnumarkaði nánast standa í stað. Færri vinnandi hendur munu því standa að baki hverjum lífeyrisþega og fyrirséður er mikill útgjaldaauki til heilbrigðismála.
Framlög til heilbrigðismála hafa verið aukin.
Verulega var skorið niður til heilbrigðismála á árunum 2009-2012. Framlög til málaflokksins hafa hins vegar verið aukin frá þeim tíma og mælt á föstu verðlagi eru útgjöld hins opinbera til heilbrigðismála meiri nú en þau voru árið 2009. Sé leiðrétt fyrir aldurssamsetningu eru útgjöld til heilbrigðismála há í alþjóðlegum samanburði.
Þrátt fyrir aukin fjárframlög glímir heilbrigðiskerfið við þrenns konar vanda.
Í fyrsta lagi þarf að efla heilsugæslustöðvarnar. Lítil nýliðun og skortur á læknum kemur niður á gæðum þjónustunnar. Í öðru lagi þarf að stytta biðlista. Biðlistar hafa lengst bæði á Landspítalanum sem og eftir hjúkrunarrýmum. Í þriðja lagi þarf að bæta aðbúnað, á Landspítalanum sérstaklega hefur mikil óánægja verið með tækja- og húsakost.
Það eru tvö aðkallandi vandamál sem skapa eina áskorun, kostnaður til heilbrigðismála mun aukast. Þessi vandamál eru,
- Þjóðin er að eldast. Útgjöld til heilbrigðismála munu vaxa samfara öldrun þjóðarinnar og aukinni þjónustuþörf til að sinna öldruðum.
- Þjóðin er að fitna. Lífsstílstengdir og langvinnir sjúkdómar eru ein helsta lýðheilsuógn Íslendinga og mun auka útgjöld til heilbrigðismála.
Það eru þrjár leiðir til að mæta aðkallandi vanda þar sem ein útilokar ekki aðra.
- Skattahækkanir. Skattbyrði er nú þegar einna mest á Íslandi samanborið við önnur ríki OECD og svigrúm því lítið til skattahækkana.
- Aukin greiðsluþátttaka sjúklinga. Ekki virðist pólitísk sátt um aukna greiðsluþátttöku og hefur krafan heldur verið að minnka hana.
- Aukin skilvirkni og hagkvæmari nýting fjármuna. Mörg sóknarfæri liggja í aukinni skilvirkni og hagkvæmari nýtingu fjármuna.
Við verðum að bregðast við.
Að öðru óbreyttu stefnir í mikinn útgjaldaauka til heilbrigðismála á komandi árum. Efnahagssvið SA hefur sett fram sjö tillögur um hvernig hægt er að bregðast við þeim áskorunum sem við okkur blasa. Eru þær settar fram með það að leiðarljósi að betri nýting fjármuna sé besta leiðin að bættri heilbrigðisþjónustu á Íslandi landsmönnum til heilla.
Greininguna má nálgast hér að neðan:
Heilbrigð samkeppni: Áskoranir og tækifæri í íslenskri heilbrigðisþjónustu (PDF)