Fjárlög 2015: Hefur umfang ríkisins aukist til frambúðar?

Nýsamþykkt fjáraukalög og fjárlög fyrir árin 2014 og 2015 gefa tilefni til að ætla að stjórnvöld telji nógu langt hafa verið gengið í samdrætti ríkisútgjalda. Gert er ráð fyrir afgangi af rekstri ríkissjóðs en árið 2014 er hann að mestu tilkominn vegna einskiptistekna og árið 2015 er hann hverfandi. Auknum tekjum er mætt með auknum útgjöldum. Þetta kemur fram í nýrri greiningu efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.

Í greiningunni kemur fram að ríkisútgjöld lækkuðu lítið eftir hrun ef frá er talinn einskiptiskostnaður og var halla snúið í afgang að mestu leyti með hækkun skatta. Bæði frumvörp gera ráð fyrir auknum umsvifum ríkisins. Raunar stefnir í að árin 2014 og 2015 verði ríkisútgjöld orðin hærra hlutfall af landsframleiðslu en nokkru sinni fyrir bankahrun.

„Áætlaður afgangur á árinu 2015 er það lítill að ætla má að meginmarkmið sé að skila hallalausum rekstri frekar en að greiða niður skuldir eða skapa svigrúm til að lækka álögur. Lítið má því út af bregða til að ríkissjóður verði aftur rekinn með halla.

Þessi stefna er mörkuð nú þegar skuldastaða íslenska ríkisins hefur sjaldan verið alvarlegri og vaxtakostnaður er orðinn einn stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs. Sé ætlunin að minnka þá byrði og koma skuldum aftur í sjálfbært horf er nauðsynlegt að líta til eignasölu samhliða hagræðingu í rekstri.

Með hliðsjón af fyrri reynslu er óábyrgt að haga ríkisfjármálum eins og framtíðin sé fyrirséð, björt og fögur. Tekjustofnar geta brugðist og vaxtakjör geta versnað. Mikilvægt er að ríkissjóður búi í haginn og verði viðbúinn áföllum þegar þau verða því í því samhengi er ekki spurning um hvort heldur hvenær.“

Greining efnahagssviðs SA:

Fjárlög 2015:  Hefur umfang ríkisins aukist til frambúðar?