Ferðaþjónusta á Íslandi: Uppgangur og áskoranir

Mikill fengur er af þeim fjölda ferðamanna sem nú streymir til landsins. Á sama tíma og miðbær Reykjavíkur blómstrar vegna aukinnar verslunar skapast kærkomin atvinnutækifæri á landsbyggðinni við að hýsa, kæta og fæða erlenda gesti. Viðskiptaafgangur þjóðarbúsins er jákvæður einvörðungu vegna þjónustuútflutnings, engar atvinnugreinar vaxa jafn hratt og greinar tengdar ferðaþjónustu og hvergi er bjartsýnin meiri er varðar fjárfestingar og ráðningar. Þetta kemur m.a. fram í nýrri greiningu efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, Komið þið fagnandi, þar sem fjallað er um uppgang og áskoranir í íslenskri ferðaþjónustu.

Miklar áskoranir fylgja eins hraðri umbreytingu á íslensku hagkerfi og ferðamannastraumurinn hefur leitt að undanförnu. Náttúruverndar- og öryggismálum er víða mjög ábótavant og kemur það öðru fremur til vegna óvissu um stöðu landeigenda, opinberra sem annarra, gagnvart almannarétti annars vegar og möguleika til að hefta ágang á svæðin hins vegar. Ekki hefur tekist að skapa hvata til þess að þeir sem standa svæðunum næst sjái um þau en líkt og í öðrum rekstri er eðlilegt að þar fari saman ábyrgð og ábati.

Nú er okkur Íslendingum hollt að halda rétt á spilunum. Þessi nýja tekjulind er um margt ólík því sem við höfum átt að venjast. Í stað þess að koma þorskinum nauðugum í bátana þurfum við nú að ganga í augun á gestunum og senda þá ánægða heim svo þeir segi vinum sínum að koma líka. Flestir koma hingað til að bera landið okkar augum og ágangur ferðamanna er svo mikill á vissum stöðum að í óefni stefnir. Eftirsóknarvert er að skapa umhverfi þar sem að arður okkar af gestunum er sem mestur og nauðsynlegt er að skapa umhverfi þar sem að landið heldur sínum þokka. Tillögur efnahagssviðs SA snúa að helstu áskorunum sem fyrir okkur liggja.

undefined

Tillaga 1: Hámörkum langtímaábatann af auðlindinni

Gjaldtaka fyrir virðisaukandi þjónustu er hagkvæmasta leiðin til að bæði hámarka arð af auðlindum og stýra ágangi á þær. Það að landeigendum verði gert mögulegt að taka gjald skapar jákvæðan hvata fyrir þá til að hámarka virði landsins til lengri tíma. Möguleiki til gjaldtöku hvetur til markaðssóknar, uppbyggingar og skapar um leið tekjur fyrir þjóðarbúið þegar ferðamenn sem sannarlega njóta landsins greiða fyrir það.

Aðrir kostir eru færir fyrir þá staði sem illa standa undir slíkum rekstri, sbr. sameiginlegur sjóður, t.d. fjármagnaður með skatttekjum eða með sölu ferðapassa.

Tillaga 2: Tryggja þarf sátt um breytingar

Mikilvægt er að aðgengi að auðlindum sé vel skilgreint og að við breytingar sé tekið tillit til þeirra sem byggt hafa upp ferðaþjónustu til margra ára. Nauðsynlegt er að boðaðar breytingar eða framsetning á almannarétti, eigendastefnu þjóðlenda og atvinnustefnu þjóðgarða séu bæði gæði og öryggi í forgrunni.

Tillaga 3: Tryggjum samkeppnishæfni landsins, ferðaþjónustan gefur merkið

Í nýju vinnumarkaðslíkani er gert ráð fyrir að útflutningsgreinar gefi merki um það svigrúm sem er til launahækkana á hverjum tíma og að aðrir geirar taki mið af því í sínum samningum. Ferðaþjónustan er með hæsta launahlutfallið af útflutningsgreinum og því útsettust fyrir kostnaðarhækkunum sem af þeim fylgja.

Greiningu efnahagssviðs SA má nálgast hér að neðan:

Komið þið fagnandi. Ferðaþjónusta á Íslandi: Uppgangur og áskoranir (PDF)