Eru skrefin stigin til fulls? Innleiðing fjármálareglu

Lögbundnar fjármálareglur: Eru skrefin stigin til fulls?

  • Hið opinbera gegnir mikilvægu hlutverki í hagstjórn á Íslandi og hefur með útgjöldum sínum, skattheimtu og lántöku töluverð áhrif á ýmsar stærðir í hagkerfinu. Mikilvægt er því að fjármálastjórn hins opinbera sé ábyrgðarfull og ýki ekki sveiflur heldur leitist við að vera hagsveiflujafnandi, þ.e. lágmarki sveiflur í landsframleiðslunni frekar en að ýkja þær. • Framfaraskref í átt að bættri hagstjórn verður að öllum líkindum stigið í haust en stefnt er að innleiðingu fjármálareglna sem munu ná bæði til afkomu og skulda hins opinbera. Þó slíkum reglum beri að fagna taka þær ekki á megin vandamáli opinberra fjármála á Íslandi. Vandinn liggur á útgjaldahliðinni.
  • Viðvarandi útgjaldavöxtur hins opinbera umfram hagvöxt er ekki sjálfbær til langs tíma og ríkisútgjöld sem ítrekað fara út fyrir ramma fjárlaga draga úr trúverðugleika fjárlagagerðar. Hvort tveggja viðgengst í opinberum fjármálum á Íslandi og hvorugt er ásættanlegt.
  • Til marks um mikilvægi útgjaldareglu til viðbótar fjármálareglnanna sem stjórnvöld hafa þegar boðað þá uppfyllti rekstur hins opinbera skilyrði bæði skulda- og afkomureglunnar árin 2006 og 2007. Þau ár uxu útgjöld hins opinbera mikið og juku þenslu í hagkerfinu en útgjaldareglan hefði komið böndum þar á. • Til að tryggja agaða og ábyrga fjármálastjórn hins opinbera þarf því samfara þeim breytingum sem boðaðar eru í haust að lögbinda útgjaldareglu. Slík regla myndi takmarka árlegan útgjaldavöxt og þannig þvinga stjórnvöld til að halda sig innan þess ramma sem settur er fram.

Mikilvægi fjármálareglu

  • Undirstaða góðrar hagstjórnar er ábyrg stjórn ríkisfjármála. Í kjölfar fjármálakreppunnar hafa mörg ríki glímt við talsverðan hallarekstur og háar skuldir. Viðbrögðin við þeirri stöðu hefur verið aukin áhersla á bætta umgjörð stefnumörkunar um opinber fjármál m.a. með því að lögfesta fjármálareglur.
  • Ýmsar alþjóðlegar stofnanir eins og Efnahags- og framfarastofnun (OECD), Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafa lagt áherslu á að ríki innleiði formlegar fjármálareglur til að stuðla að agaðri og bættri fjármálastjórn hins opinbera.
  • Fjármálareglur setja fjármálastjórn fastari skorður og gera hana fyrirsjáanlegri. Mikilvægt er að fjármálareglur séu trúverðugar, vel hannaðar, einfaldar og hafi þann sveigjanleika sem þarf til að unnt sé að bregðast við ófyrirséðum áföllum.
  • Aukið umfang hins opinbera vegna umframkeyrslu ríkisútgjalda og kerfisbundins vaxtar útgjalda á góðæristímum einskorðast ekki aðeins við Ísland. Þvert á móti glíma mörg ríki við svipaðan vanda og nú þegar færst hefur í vöxt að ríki séu komin í vandræði með skuldir sínar hafa mörg þeirra tekið upp útgjaldareglur samfara öðrum fjármálareglum. Það er ríkjum mikilvægt að halda útgjöldum í skefjum til að tryggja rekstrargrundvöll, skapa möguleika á niðurgreiðslu skulda og stuðla þannig að sjálfbærum rekstri hins opinbera.

Tvískipt fjármálaregla: Afkomu- og skuldaregla

Fjármálaráðherra lagði í vor fram frumvarp til laga um opinber fjármál. Lagt er til að lögfest verði ákvæði um stefnumörkun í opinberum fjármálum, þannig að mynduð verði fjármálastefna og gerð fjármálaáætlun til fimm ára í senn. Frumvarpið er mikilvægt skref í átt að bættri hagstjórn og ábyrgari stjórn opinberra fjármála.

Fjármálareglunni er skipt á eftirfarandi hátt,

  1. Heildarafkoma hins opinbera yfir fimm ára tímabil skal ávallt vera jákvæð og árlegur halli ávallt undir 2,5% af landsframleiðslu.
  2. Heildarskuldir hins opinbera, að frátöldum lífeyrisskuldbindingum og viðskiptaskuldum en að viðbættum sjóði og bankainnstæðum, skulu ávallt vera lægri en sem nemur 45% landsframleiðslu.
  3. Ef skuldahlutfall hins opinbera er hærra en 45% af landsframleiðslu þá skal sá hluti sem umfram er lækka að meðaltali á hverju þriggja ára tímabili um a.m.k. 5% á hverju ári. Í frumvarpinu er einnig lagt til að stofnað verði fjármálaráð sem leggja myndi mat á það hvort fjármálastefnan fylgi grunnmarkmiðum fjármálareglunnar og stuðli að efnahagslegum stöðugleika.

Greiningu efnahagssviðs má nálgast hér að neðan:

Eru skrefin stigin til fulls? Innleiðing fjármálareglu (pdf)