Er húsnæðiskostnaður að sliga landann?
Húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað hratt á síðustu árum. Á sama tíma hafa laun einnig hækkað og aðgengi að lánsfé hefur farið batnandi. Þó húsnæðisverð sé orðið töluvert hærra en þegar það náði lágpunkti árin eftir bankahrun er ekki að sjá að húsnæðiskostnaður sé meiri nú en oft áður a.m.k. ekki miðað við launavísitölu og vaxtakostnað.
Þetta kemur fram í nýrri umfjöllun efnahagssviðs SA en þar segir m.a.:
Þrátt fyrir að verð fasteigna virðist í þokkalegu jafnvægi er óþarfi að gera lítið úr umkvörtunum fólks sem telur erfitt að eignast sitt eigið húsnæði. Margir eiga erfitt með að komast í gegnum greiðslumat lánastofnanna þó þeir telji sig vel færa til að standa straum af afborgunum lána. Lærdómur lánveitenda af hruni virðist m.a. hafa verið að setja auknar kröfur í greiðslumati auk þess að matsferlið var endurskoðað árið 2013 þegar ný neytendalánalög tóku gildi.
Húsnæðisverð hefur hækkað mismikið eftir hverfum og hefur töluverður verðmunur myndast síðastliðin ár milli miðbæjar Reykjavíkur og úthverfa höfuðborgarsvæðisins. Slík verðlagning er alþekkt í erlendum borgum þar sem fólk borgar aukalega fyrir nálægð við miðborg, m.ö.o. greiða hærra verð fyrir staðsetningu en spara sér í leiðinni ferðakostnað.
Þrátt fyrir að fasteignaverð sé ekki óeðlilega hátt í sögulegum samanburði er ekki þar með sagt að það gæti ekki verið lægra. Byggingakostnaður virkar sem gólf á fasteignaverð nýbygginga enda væri hagur verktaka lítill af húsbyggingum ef þeir næðu ekki í það minnsta upp í kostnað.
Til að hægt sé að lækka fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu er einsýnt að lækka verður byggingarkostnað. Byggingarkostnaður er háður mörgum öðrum breytum en efniskaupum og vinnulaunum. Opinberar álögur eru þungur baggi á mörgum nýbyggingum auk reglugerða sem gera sem dæmi byggingu ódýrra minni íbúða nánast ómögulega.
Í því samhengi má nefna áform Reykjavíkurborgar sem birtust í Morgunblaðinu síðastliðinn föstudag þar sem fram kom að til stæði að nær tvöfalda gatnagerðargjöld í fyrirhugaðri Vogabyggð og á öðrum þéttingarreitum. Slík álagning eykur byggingarkostnað og veldur því að fasteignaverð verður að hækka enn frekar á þeim eignum til þess að framkvæmdirnar dekki kostnað.
Í ljósi þess að fasteignaverð mun til lengri tíma ávallt verða hærra en byggingarkostnaður verða stjórnvöld að haga reglugerðarsetningu þannig að mögulegt sé að byggja íbúðir sem fólk hefur efni á að búa í.
Sjá nánari umfjöllun efnahagssviðs SA: