Efnahagshorfur til 2016 og ferðaþjónustan
Samtök atvinnulífsins kynntu 9. apríl nýja hagspá efnahagssviðs SA. Þar var farið yfir horfur til ársins 2016 ásamt því sem kynnt var ný greining á stöðu og horfum í ferðaþjónustu. Kynningin fór fram fyrir fullum sal á Grand Hótel Reykjavík en frummælendur voru Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður, efnahagssviðs SA, Sigríður Mogensen, hagfræðingur á efnahagssviði SA og Ásberg Jónsson, framkvæmdastjóri Nordic Visitor.
Ásdís Kristjánsdóttir: Horfur til 2016: Jafnvægi innan hafta?
Efnahagsbatinn hófst í ársbyrjun 2011. Viðsnúningur hefur gengið vonum framar og framleiðslutapið í kjölfar hrunsins hefur að mestu leyti gengið tilbaka. Ferðaþjónustan hefur dregið vagninn í efnahagsbatanum. Ef ferðaþjónustan hefði ekki komið til þá væri mun lengra í land með að ná fyrra framleiðslustigi.
Staðan í dag er viðkvæm. Sú hætta er fyrir hendi að sagan endurtaki sig, hagkerfið ofhitni, keyrt áfram af innlendri eftirspurn - að þessu sinni innan hafta. Útflutningsdrifinn hagvöxtur er lykilforsenda þess að unnt sé að losa um höftin á komandi árum.
Mikilvæg úrlausnarverkefni eru framundan, verkefnin eru erfið en þau eru leysanleg. Með hverju ári sem líður verður sífellt erfiðara að brjótast úr vítahring haftanna. Langtímahorfur í íslensku efnahagslífi munu á endanum velta á losun hafta.
Smelltu hér til að sækja kynningu Ásdísar
Sigríður Mogensen: Ferðaþjónustan - framleiðni og lífskjör
Hagkerfið tók stakkaskiptum eftir efnahagshrunið 2008 í kjölfar raungengislækkunar. Vægi útflutningsgreina jókst, fjármálaþjónusta og byggingariðnaðar drógust saman og innlend framleiðsla tók við sér.
Ferðaþjónustan skiptir sköpum fyrir efnahagsbatann og er nú orðin stærsta útflutningsgrein landsins. Mikilvægi greinarinnar er óumdeilt. Aftur á móti er áhyggjuefni að skatttekjur á hvern ferðamann hafa dregist saman að raunvirði og haldast ekki í hendur við aukin umsvif greinarinnar. Þá er arðsemi mismunandi innan ferðaþjónustunnar. Annarsvegar eru nokkur stór og arðsöm fyrirtæki en flest fyrirtæki innan greinarinnar eru lítil og skila lítilli eða neikvæðri arðsemi eiginfjár.
Framleiðni á Íslandi er lág í alþjóðlegum samanburði og gangi spá OECD eftir er útlit fyrir að Ísland dragist enn frekar aftur úr. Mikilvægt er að þessari þróun verði snúið við sem fyrst. Framleiðni í ferðaþjónustu er lág og svipar til framleiðni hjá hinu opinbera - þó hefur dregið úr árstíðarsveiflu frá árinu 2009 en það hefur líklega bætt framleiðnina. Hætta er á stöðnun lífskjara ef ekki tekst að auka verðmæti þeirra starfa sem hagkerfið byggir á til frambúðar, svo sem í ferðaþjónustu.