Umbætur á íslenskri peningastefnu: Hvað er handan múrsins?
Auðnist okkur Íslendingum að losa um fjármagnshöft á komandi misserum mæta okkur aukin tækifæri en um leið nýjar áskoranir. Það er enginn hægðarleikur að stýra íslenskri krónu í opnu hagkerfi eins og við höfum áður reynt á eigin skinni. Sveiflur eru tíðar og mikið ójafnvægi getur myndast á fjármálamörkuðum sem aftur bitnar á öðrum geirum, heimilum og fyrirtækjum. Frjáls fjármagnsviðskipti eru þó nauðsynleg hverri þjóð sem sækist eftir góðum lífskjörum og á sama tíma mikilvæg fyrir samskipti lítillar þjóðar við hinn stóra heim. Aukin samskipti við útlönd auka þekkingu, víkka sjóndeildarhringinn og veita einstaklingum betri tækifæri til að þróa hæfileika sína og aukna möguleika til að koma hugmyndum sínum í framkvæmd. Mikilvægt er því að vanda til verka þegar höftunum léttir og tryggja að umgjörð peningastefnunnar sé nægilega sterk til þess ekki verði þörf á ekki verði þörf á endurreisa þá múra sem við felldum.
Taka þarf mið af fyrri reynslu
Margt má læra af fyrri reynslu Íslendinga af opnum fjármagnsmörkuðum. Peningastefnan skilaði ekki þeim árangri sem vonast var eftir og auðséð varð að sjálfstæð peningastefna með stjórntæki, sem lítil áhrif hefur á vaxta- og eftirspurnarstig, er vanmáttug. Frá upptöku verðbólgumarkmiðs í ársbyrjun 2001 og fram að setningu fjármagnshafta árið 2008 var verðbólga nánast alltaf yfir markmiði. Á sama tíma styrktist raungengið jafnt og þétt þannig að hér myndaðist verulegur viðskiptahalli upp á nærri fjórðung af landsframleiðslu. Þessi ósjálfbæra styrking raungengisins ýtti undir innflutta neyslu og erlenda skuldasöfnun þannig að lokum stóð eftir hruninn kaupmáttur og miklar erlendar skuldir.
Tillögur SA: Verðbólgumarkmið-plús-plús
Seðlabankinn starfar í dag að verulegu leyti samkvæmt „verðbólgumarkmiði-plús“ sem felst í því að bankinn beitir inngripum á gjaldeyrismarkaði til að jafna sveiflur krónunnar. SA leggur til að til viðbótar sveiflujöfnuninni verði horft í auknum mæli til raungengis krónunnar. Eðlileg hækkun raungengis verður þegar framleiðni eykst umfram viðskiptalönd en sé slík hækkun ekki grundvölluð á undirliggjandi hagstærðum, líkt og fyrir hrun á Íslandi, skapar það falskan kaupmátt og dregur úr samkeppnishæfni landsins. Slík þróun kallar óhjákvæmilega á leiðréttingu með gengisfalli síðar sem getur orðið með hvelli eins og raunin varð árið 2008. SA leggur því til að Seðlabankinn hafi heimild til að beita sér gegn ósjálfbærri hækkun raungengis með því að leyfa gengi krónunnar að lækka.
Gagnasæi peningastefnunnar er ekki síður mikilvægt en einstakar útfærslur. Mikilvægt er að byggja undir trúverðugleika hennar með ýmsum leiðum. Seðlabankinn birti til skamms tíma eigin spá um vaxtaferil og leggur SA til að það verklag verði tekið upp á ný. Reynslan af því var að Seðlabankinn hafði aukin áhrif á væntingar um langtímavaxtaferil bankans en aukið gagnsæi styrkir miðlun peningastefnunnar.
Auðmýkt er einnig til þess fallin að auka trúverðugleika og samstöðu um stefnu. Samráðsvettvangur um aukna hagsæld lagði til reglulega endurskoðun á peningastefnunni með aðkomu breiðs hóps sérfræðinga úr stjórnsýslunni, aðila vinnumarkaðar, alþjóðastofnana og fræðimanna. Slík endurskoðun væri til þess fallin að auka sátt og stuðning við framkvæmd stefnunnar. Æskilegt er að opnir fundir peningastefnunefndar með efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis verði tíðari og reglulega eigi sér stað frammistöðumat seðlabanakstjóra og að það yrði til grundvallar mögulegri endurráðningu.
Myndum sátt og treystum grunninn
Markmið þessara tillagna er að peningastefnan eftir losun fjármagnshafta standi á traustari grunni en fyrir efnahagshrunið 2008. Tillögunum er ætlað að styrkja trúverðugleika, samstöðu og stuðning við peningastefnuna auk þess að ýta undir yfirvegaða en um leið gagnrýna umræðu um hvaða leiðir séu best til þess fallnar að hámarka velferð okkar sem landið byggjum.