Tími hafta hefur runnið sitt skeið
Tími hafta hefur runnið sitt skeið
Í dag tóku gildi lög um að sérstök bindiskylda á fjármagnstinnstreymi er felld niður en hún var 20%. Þetta er önnur breytingin á stuttum tíma en í nóvember 2018 var bindiskyldan lækkuð úr 40% í 20%. Markar þessi breyting kaflaskil í íslenskri haftasögu en í fyrsta skipti frá árinu 2008 er Ísland án hafta.
Í tilkynningu frá Seðlabankanum kemur fram að skilyrði séu nú til losunar hafta þar sem litlar líkur séu á verulegu innflæði fjármagns og meira jafnvægi sé á fjármagnsflæði til og frá landinu en áður. Í því samhengi skiptir auk þess máli að gjaldeyrisforði Seðlabankans er í dag 760 milljarða króna á sama tíma, hrein erlend eignastaða þjóðarbúsins er jákvæð um 280 milljarða króna. Bindiskyldan sem stjórntæki verður áfram til staðar í vopnabúri Seðlabankans og því hægt að hækka hana á ný ef aðstæður breytast. Áhættan við losun innflæðishaftanna er því afar lítil við núverandi skilyrði.
Haftalaust Ísland er fagnaðarefni fyrir fyrirtæki og heimili í landinu.
Afnám innflæðishafta er í anda ráðleggingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem ítrekað hefur bent á að beiting fjármagnshafta megi réttlæta í neyð, en sú neyð hefur ekki verið til staðar í íslensku efnahagslífi í þó nokkurn tíma.
Mikilvægt skref
Ljóst er að innflæðishöftin hafa dregið úr áhuga erlendra aðila á fjárfestingum á Íslandi. Innlendir fjárfestar; einstaklingar, fyrirtæki og lífeyrissjóðir, hafa verið að færa hátt á annað hundrað milljarða úr krónum yfir í gjaldeyri á sama tíma og innflæði erlends fjármagns hefur verið óverulegt. Þegar kaupendahópi eins og erlendum fjárfestum er haldið frá með höftum verður framboð fjármagns minna. Við slík skilyrði hækka grunnvextir á skuldabréfamarkaði og þar með fjármagnskostnaður heimila og fyrirtækja.
Höftin hafa verið hindrun í vegi þeirra sem vilja og hafa áhuga á að fjárfesta í íslensku efnahagslífi og vonandi að nú þegar sú hindrun er úr vegi að áhuginn muni aukast. Er það einkum mikilvægt nú þegar efnahagshorfur eru að breytast og útlit fyrir að hagvöxtur næstu ára verði heldur minni en hefur verið undanfarin ár. Aðstæður eru að breytast hratt í íslensku efnahagslífi. Afnám innflæðishafta er mikilvægt og kærkomið skref. Haftalaust Ísland er fagnaðarefni fyrir fyrirtæki og heimili í landinu.
Nánari upplýsingar á vef Seðalabankans:
Losun fjármagnshafta á aflandskrónueigendur og lækkun sérstakrar bindiskyldu á fjármagnsinnstreymi