Taumhald peningastefnunnar í krónuskorti
Fyrir árið 2007 var almennt litið svo á að seðlabankar hefðu aðeins eitt stjórntæki – stýrivexti. Í dag eru stjórntækin orðin fleiri og einföld vaxtajafna Taylors nær ekki utan um þá fjölmörgu þætti sem hafa áhrif á verðstöðugleika. Þegar aðhald peningastefnunnar er til umræðu þarf því að horfa til þeirra stjórntækja sem í notkun eru hverju sinni.
Í ljósi þessa vekur athygli að í rökstuðningi peningastefnunefndar á vaxtaákvörðunarfundum, nú síðast í gær, er nánast undantekningarlaust rætt um aðhald peningastefnunnar út frá raunstýrivaxtastiginu einu saman en ekkert minnst á önnur stjórntæki sem eru í notkun og hafa áhrif á útlánavexti og skuldsetningu heimila og fyrirtækja. Hér er um að ræða stjórntæki eins og innflæðishöftin, höft sem hafa undanfarin ár lokað að mestu á allar fjárfestingar erlendra aðila í íslenskum skuldabréfum og þrýsta upp vaxtastiginu. Háar kröfur um eiginfjárauka, langt umfram það sem gengur og gerist í nágrannalöndum, sem draga úr útlánagetu bankanna og hækka útlánavexti. Þá er hvergi innan Evrópu hærri skattalagning á fjármálafyrirtæki en á Íslandi, allt að tíu sinnum hærri en á Norðurlöndunum sem dæmi og vegur bankaskatturinn þar þyngst. Slík skattheimta hefur einnig áhrif á útlánavexti.
Lausafjárstaða bankanna takmarkar getu þeirra til útlána og hafa margir lýst yfir áhyggjum sínum um að krónuskortur gæti verið að myndast í bankakerfinu vegna beitingu ofangreindra tækja. Á meðan krónuskortur raungerist í bankakerfinu missa meðlimir peningastefnunefndar vonandi ekki svefn þó að raunstýrivextir lækki lítillega á næstu mánuðum. Nýjar hagvaxtartölur bera þess merki að kólnun sé hafin í hagkerfinu og ef fram fer sem horfir mun skortur á krónum kæla hagkerfið enn hraðar og enn meira en ástæða er til. Hið raunverulega peningalega aðhald er umtalsvert meira en stýrivextirnir einir og sér gefa til kynna og tími til kominn að það sé rætt í tengslum við vaxtaákvarðanir Seðlabankans.
Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA.
Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 13. desember 2018