Stjórnlausi fimmtungurinn

Á Íslandi er málum þannig háttað að kostnaður vegna eigin húsnæðis hefur ríflega fimmtungs vægi í vísitölu neysluverðs. Eðli máls samkvæmt hefur þróun húsnæðisverðs því mikil áhrif á íslenskt vaxtastig. Vandinn er hins vegar sá að miðlun stýrivaxta yfir til húsnæðislánavaxta er ákaflega veik, nánast engin, eins og kemur fram í rannsókn sem unnin var á dögunum fyrir starfshóp um endurskoðun peningastefnunnar.

Á síðustu árum hefur Seðlabankinn viðhaldið háu vaxtastigi með aðstoð stífra innflæðishafta

Seðlabankastjóri gefur þó lítið fyrir slíkar áhyggjur og bendir á að inni í verðbólgumarkmiði bankans sé einnig olíuverð þrátt fyrir að íslenskri stýrivextir hafi bersýnilega engin áhrif á þróun alþjóðlegs olíuverðs. Þessi samlíking er undarleg. Bein áhrif olíuverðs á verðbólgumarkmiðið eru 3% en áhrif húsnæðisliðar vegna eigin húsnæðis 20%. Það liggur því í augum uppi að Seðlabankinn á auðveldara með að horfa framhjá hækkun undirliðar á borð við olíuverð án þess að raska skilgreindum verðstöðugleika fremur en undirliðar sem vigtar ríflega fimmtung í verðbólgumarkmiðinu. Sökum veikrar vaxtamiðlunar yfir til húsnæðislánavaxta veldur hækkun húsnæðisverðs umfram aðra liði því að Seðlabankinn þarf að halda stýrivöxtum mun hærri en ellegar til þess að ná fram verðhjöðnun á öðrum liðum markmiðsins.

Þetta hljómar allt saman kunnuglega. Á síðustu árum hefur Seðlabankinn viðhaldið háu vaxtastigi með aðstoð stífra innflæðishafta. Á sama tíma hefur húsnæðisliðurinn hækkað um 10-20% milli ára en flestir aðrir undirliðir verðbólgunnar lækkað í verði.

Tilraunir til að beita íslenskum stýrivöxtum á eignaverð hafa áður mistekist. Á árunum 2004-2007 var reynt var að draga úr verðhækkun fasteigna með miklum stýrivaxtahækkunum með þeim afleiðingum að krónan styrktist, eftirspurn jókst, viðskipahalli náði stærð sem ekki hafði sést áður og fasteignaverð hélt áfram að hækka. Enn á ný stjórnar eignaverð vaxtastefnu Seðlabankans. Það eitt ætti að valda seðlabankastjóra áhyggjum.

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 21. júní 2018.