Skortur á húsnæði drífur áfram verðbólgu
Hagstofa Íslands hefur birt verðbólgutölur fyrir marsmánuð. Ársverðbólga mælist nú 2,8% og þó svo að verðbólgan sé komin yfir markmið Seðlabankans má ekki ekki rekja ástæðu þess til aukinnar þenslu í þjóðarbúskapnum heldur fyrst og fremst til framboðsskorts á húsnæði.
Í fyrsta skiptið í fjögur ár mælist verðbólgan yfir markmiði Seðlabankans. Ef rýnt er í undirliði verðmælinga Hagstofunnar þá hækkuðu allir undirliðir að undanskildu húsnæði minna eða til jafns við 2,5% verðbólgumarkmið og enn mælist verðhjöðnun upp á 0,3% ef húsnæðisliður er undanskilinn.
Milli mánaða hækkaði verðlag um 0,56% og eru drifkraftar hækkunarinnar áhrif útsöluloka auk hækkana á húsnæði. Almennt hækkar verð á fatnaði, skóm og húsbúnaði í mars þegar útsölur ganga til baka. Aðrir undirliðir hækka ekki mikið, standa í stað eða lækka lítillega.
Það er áhugavert að bera breytinguna í mars saman við sama mánuð í fyrra. Eins og sést á neðangreindri mynd þá eru meginskýringar á aukinni verðbólgu nú að olíuverð lækkar ekki eins og í fyrra auk þess sem gengisstyrking krónunnar er heldur minni nú en þá.
Þá kemur lækkandi heimsmarkaðsverð á olíu ekki lengur til lækkunar á vísitölunni né veruleg gengisstyrking krónunnar. Nýjar verðbólgutölur eru ekki eins mikil tíðindi og ætla mætti við fyrstu sýn. Verðmæling Hagstofunnar ætti að hafa lítil áhrif á vaxtastefnu Seðlabankans því íslensk peningastefna hefur engin áhrif á heimsmarkaðsverð á olíu. Vaxtahækkun væri frekar til þess fallin að auka framboðsvanda á húsnæðismarkaði og ýta undir enn frekari hækkun á húsnæðisverði.