Hverju hefur niðurfelling vörugjalda skilað?

Við síðustu áramót voru felld niður almenn vörugjöld af innfluttum vörum en þau lögðust á ýmsar vörur, allt frá kexi til gírkassa. Þyngst vógu vörugjöld á raftæki og byggingavörur en 15-25% vörugjald lagðist á slíkar vörur við komu til landsins með tilheyrandi verðhækkunum í útsöluverði til kaupenda.

Niðurfelling vörugjaldanna hefur reynst veruleg búbót fyrir íslenska neytendur. Verðlag á Íslandi er hátt í alþjóðlegum samanburði en verðmunurinn dróst þó verulega saman við afnám vörugjaldanna. Þetta kemur m.a. fram í nýrri umfjöllun efnahagssviðs SA um hverju niðurfelling vörugjaldanna hefur skilað.

Á meðfylgjandi myndum er sýnd þróun verðmunar tveggja stórra raftækja á Íslandi m.v. verð í Noregi og Svíþjóð. Borin eru saman lægstu verð í Svíþjóð og Noregi við verð sömu tækja í ónefndri íslenskri raftækjaverslun. Eins og sést af myndunum minnkaði verðmunurinn mikið um áramótin þegar innheimta vörugjalda var aflögð á þessum vörum. Fyrir lögðust 20% vörugjöld á þvottavélar og 25% á sjónvörp.

undefined

Vörugjöld voru sem fyrr segir afnumin af stærri heimilistækjum og öðrum raftækjum. Á meðfylgjandi mynd má sjá meðaltal verðmunarins fyrir og eftir áramót, m.v. Svíþjóð annars vegar og Noreg hins vegar.

undefined

Eins og myndirnar bera með sér lækkaði verð mikið hér á landi við afnám vörugjaldanna. Verðmunurinn er þó enn töluverður, sérstaklega miðað við Svíþjóð, og skýrist hann m.a. af flutningskostnaði og ólíku rekstrarumhverfi. Verðmismunurinn er ekki kaupmáttarleiðréttur og skýrir það að hluta af hverju mismunur við Noreg er mun minni heldur en við Svíþjóð, en tekjur eru hærri í Noregi og þ.a.l. verðlag einnig.  Hvort verðmunurinn sé meiri en slíkir þættir réttlæta skal láta ósagt hér en auðséð er að hann hefur minnkað umtalsvert við afnám vörugjaldanna.

Fataverslunina heim?
Fjármálaráðherra hefur nýlega reifað hugmyndir um að afnema tolla á fatnað og skó í fjárlögum næsta árs. Slíkar vörur bera nú 15% tolla og af fenginni reynslu má ætla að slík aðgerð myndi skila íslenskum heimilum kærkominni búbót í lægra verði á fatnaði og auknum kaupmætti.

Fatnaður er tölvuvert dýrari á Íslandi en víðast hvar erlendis og hefur það ýtt undir það að fólk nýti utanlandsferðir sínar til fatakaupa. Á árinu 2012 gerði Meniga úttekt á hlutdeild erlendra fataverslana á Íslandi en henni kom í ljós að verslunarkeðjan H&M, fataverslun sem ekki er starfrækt á Íslandi, var með um 22% markaðshlutdeild í fatakaupum Íslendinga. Lækkun tolla á fatnaði myndi bæta samkeppnisstöðu innlendra fataverslana og stuðla að því að sú verslun færðist frekar inn fyrir landsteinana.

Fróðlegt er að bera saman verðmun fatnaðar á Íslandi og í öðrum ríkjum. Verðlag á Íslandi er samkvæmt þessu um 20% hærra en í Svíþjóð og Danmörku og má því leiða að því líkur að við afnám 15% tolla gæti sá verðmunur orðið hverfandi. Eftir miklu er því að slægjast fyrir íslenska neytendur sem og verslunarmenn, en auk þess að auka kaupmátt heimila myndi afnám tolla skapa íslenskri verslun heilbrigðara samkeppnisumhverfi gagnvart erlendri verslun.

undefined

Árlegur sparnaður íslenskra heimila 5 milljarðar króna
Þar sem fatakaup nema aðeins um 5% af heildarútgjöldum heimila myndu verðlækkanir á fatnaði ekki hafa úrslitaáhrif á verðlagsþróun hér á landi. Afnám tolla gæti þó lækkað vísitölu neysluverðs um 0,6%.

Íslensk heimili eyða nú um 38 milljörðum króna í fatakaup hér innanlands árlega, eða um 300 þúsund krónur hvert heimili. Að því gefnu að afnám tolla af fatnaði myndi lækka útsöluverð um 13% má áætla að árlegur sparnaður heimila í landinu yrði um 5 milljarðar króna.

undefined

Úrval vara hjá innlendum fataverslunum myndi að öllum líkindum aukast með sterkari rekstrargrundvelli fataverslunar á Íslandi. Íslendingar gætu í auknum mæli notið utanlandsferða sinna utan fatabúða og um leið yrðu erlendir ferðmenn líklegri til að auka fatakaup sín hér á landi.

Efnahagssvið fagnar því áformum ráðherra um afnám tolla á fatnað og skó. Slík breyting væri til þess fallin að auka kaupmátt neytenda, styrkja grundvöll innlendrar verslunar og um leið myndi hún bæta utanlandsferðir Íslendinga um alla framtíð.