Hagvísar á hraðri niðurleið

Hagvísar staðfesta að efnahagslífið gengur í gegnum aðlögunarferli. Miklum hagvexti undanfarinna ára er lokið. Nýbirt hagspá Seðlabankans staðfestir það. Gert er ráð fyrir að hagvöxtur verði 1,8% á þessu ári en hann hefur ekki verið minni síðan árið 2012. Í spánni felst að hagvöxtur á hvern íbúa verði neikvæður, en hagvöxtur á mann er einfaldur mælikvarði á svigrúm til kjarabóta.

Umskiptin greinileg í nýrri hagspá Seðlabanka Íslands
Í nýjustu Peningamálum Seðlabankans eru dregin fram þau umskipti sem nú eiga sér stað í íslensku hagkerfi. Augljóst er að Íslendingar þurfa að aðlagast breyttum veruleika. Hér að neðan eru dregnir fram þrír hagvísar úr Peningamálum.

Hagvísir 1: Hægir á umsvifum í hagkerfinu

  • Minni hagvöxtur. Ný hagsvaxtarspá Seðlabankans gerir ráð fyrir að hagvöxtur á þessu ári verði 1% lægri en gert var ráð fyrir í hagspá bankans er birtist fyrir þremur mánuðum síðan.
  • Minni einkaneysla. Eftirspurn heimila vex hægar, bæði dregur úr kortaveltu og eins eru væntingar þeirra í sögulegu lágmarki.
  • Ferðamönnum fækkar. Samdráttur var í komum ferðamanna til landsins á fyrsta mánuði ársins og er því spáð að svo verði fyrir árið í heild. Spá Seðlabankans gerir ráð fyrir að þjónustuútflutningur dragist saman á þessu ári, í fyrsta skipti frá árinu 2008.

Hagvísir 2: Efnahagsslaki og aukið atvinnuleysi

  • Auknar líkur á uppsögnum. Meirihluti stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins telja sig þurfa að fækka starfsfólki á næstu 6 mánuðum. Hefur hlutfall þeirra sem telja sig þurfa að fækka starfsfólki samanborið við þá sem ætla að fjölga starfsfólki ekki mælst hærra frá því í fjármálakreppunni.
  • Aukið atvinnuleysi. Seðlabankinn gerir ráð fyrir að hraðar dragi úr spennu í hagkerfinu en áður var spáð. Talið er að framleiðsluspennan verði horfin í lok þessa árs. Samfara hægari umsvifum og meiri slaka er gert ráð fyrir meira atvinnuleysi en áður.

Hagvísir 3: Versnandi horfur í helstu viðskiptalöndum

  • Minni hagvöxtur beggja vegna Atlantshafsins. Horfur um hagvöxt á heimsvísu og einkum í helstu viðskiptalöndum Íslands er áhyggjuefni og gæti haft neikvæð áhrif á horfurnar á Íslandi. Vegur þar þyngst versnandi horfur og aukin óvissa á evrusvæðinu en einnig eru lakari hagvaxtarhorfur í Bandaríkjunum.

Verði áföll á erlendum mörkuðum skiptir sköpum hversu samkeppnishæft íslenskt hagkerfi er og hver viðbrögðin verða. Í skjóli búhnykkja á borð við aukinn ferðamannafjölda hefur Íslendingum tekist að vaxa hratt þrátt fyrir að samkeppnishæfnin hafi látið undan síga. Slíkt er hægt um skamma hríð en um leið og vindar snúast getur lendingin orðið hörð. Takmörk eru fyrir því hversu hátt er hægt að verðleggja íslenskar vörur og þjónustu, sér í lagi þegar kreppir að í viðskiptalöndunum.

Versnandi horfur erlendis og vaxandi óvissa
Síðustu ár hefur erlend þróun verið einkar hagfelld íslensku hagkerfi og m.a. gert mikinn vöxt mögulegan þrátt fyrir ört hækkandi rekstrarkostnað íslenskra fyrirtækja. Önnur staða er nú uppi erlendis og ólíklegt að þróunin þar muni styðja við íslenska hagkerfið á komandi árum. Eins og fram kom í máli Gitu Gopinath, aðalhagfræðingi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þá hafa horfur á Evrusvæðinu versnað að undanförnu og mikil óvissa ríkir um bæði áhrif útgöngu Breta úr Evrópusamanbandinu og skuldastöðu stórra ríkja á borð við Ítalíu.  Óvissan kemur m.a. fram í því að alþjóðlegt eignaverð hefur gefið eftir og hafa líkur á samdrætti hjá helstu viðskiptalöndum Íslands því aukist á undanförnum misserum. Fari svo að eftirspurn eftir íslenskum vörum og þjónustu verði minni en búist var við þá hefur það neikvæð áhrif á eftirspurn eftir vörum og þjónustu frá Íslandi, afkomu íslenskra fyrirtækja og þar með lífskjör almennings, atvinnustig og kaupmátt.