Endahnútur: Ó helga króna
Jólahátíðin nálgast og landinn iðar af villibráðarspennu sem aldrei fyrr. Ekki eru fleiri en átta ár síðan að þjóðin steinlá á kaldri jörðinni eftir bakfall í kjölfar vandræðalegrar framúrkeyrslu. Við horfðum eftir nær heilu bankakerfi hrynja á örfáum köldum haustdögum og dustuðum rykið af gjaldeyrishöftunum.
Í þá daga vorum við kölluð hryðjuverkamenn á Bretlandi en nú er öldin önnur og eldfjallaeyjan rís í norðri. Ferðamenn færa hingað fé í flugförmum, krónan styrkist um tugi prósenta milli ára en á sama tíma virðist Seðlabankinn vilja halda okkur í toppbaráttunni um heimsins hæstu raunvexti. Ekki er nema von að útflutningsgreinum svíði er þær verða ósamkeppnishæfari og sjá afkomuna falla.
Á sama tíma er áhugi erlendra fjárfesta slíkur að Seðlabankinn sá sér ekki annað fært en að mæta slíkum áhuga með innflæðishöftum. Ekki á að endurtaka mistök fyrri ára heldur girða fyrir þau með höftum. Seðlabankinn fagnar því að tekist hefur að fæla burt erlenda skuldabréfafjárfesta.
Á sama tíma og þröskuldar eru reistir á innflæði eru tekin hænuskref við losun hafta á útflæði þrátt fyrir að þeir fjárfestar sem fyrir eru virðast engan áhuga hafa á að færa fjármagn sitt úr landi. Það á heldur betur að fara varlega.
Á meðan pantar landinn jólagjafir á gjafaverði frá útlöndum og skálar fyrir sterkri krónu. Hversu mikil framúrkeyrslan á endanum verður mun koma í ljós með tíð og tíma en ef mjög illa fer þá búum við í það minnsta að því að hafa endurvakið hina fornu þjóðlist að loka okkur inni í höftum.
Höfundur er Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.
Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 2. desember 2016