Endahnútur: Mýtur
Við búum í dag við sjaldséðan stöðugleika og er þá sama til hvaða hagtalna er litið. Allar sýna þær meiri heilbrigðismerki en við höfum vanist. Nú eru blikur á lofti. Kjarasamningar eru lausir, verkföll eru hafin og verðbólguvæntingar eru á uppleið. Ljósvakarnir loga, fréttir, pistlar og statusar dynja á okkur um stöðugleika, réttlæti, samningsvilja, verðbólgu, arðgreiðslur og fleira.
Í umræðu um þessi mál eru ýmsar mýtur á sveimi. Því hefur t.d. verið haldið fram að mikill tekjuójöfnuður ríki á Íslandi en hagtölur benda til annars. Samkvæmt þeim eru tekjulægstu hóparnir á Íslandi með fjórða hæsta hlutfall af heildarlaunatekjum meðal ríkja OECD. Tekjujöfnuður er þ.a.l. með allra mesta móti á Íslandi. Sést það berlega í kröfum BHM sem fara fram á í sinni kröfugerð að „menntun sé metin til launa“, þ.e. að laun háskólamenntaðara hækki meira en ómenntaðra.
Þar komum við að nefnilega að annarri mýtu, að samstaða sé meðal verkalýðshreyfingarinnar um að hækka beri lægstu laun og draga úr tekjuójöfnuði. Svo er ekki. BHM hefur einnig haldið því fram að opinberir starfsmenn hafi dregist verulega aftur úr í launaþróun og mætum við þá þriðju mýtunni. Rétt er það að opinberir starfsmenn hafa fengið 4% minna en starfsmenn á almennum markaði á síðstaliðnum 10 árum. Hins vegar blasir við nokkuð ólík mynd þegar horft er til óskertra lífeyrisréttinda opinberra starfsmanna.
Fjórða mýtan snýst um orðið „hræðsluáróður“. Ýmsir hafa kallað það hræðsluáróður að miklar launahækkanir valdi verðbólgu og eins hefur Seðlabankinn verið sakaður um hræðsluáróður þegar hann boðar vaxtahækkanir í kjölfar óábyrgra samninga. Nægir að horfa til kjarasamninga 2011, en þá voru laun hækkuð umfram svigrúm atvinnulífsins og urðu afleiðingarnar aukin verðbólga sem að Seðlabankinn brást við með vaxtahækkunum. Í fyrra var hinsvegar samið um hóflegri hækkanir og kaupmáttur jókst um ríflega 5% í kjölfarið, svipað og á þensluárinu 2007.
Því miður virðumst við þó ekki ætla að læra af reynslunni, heldur kjósa verðbólguna umfram skynsemina.
Höfundur er Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.
Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 1. júní 2015