Endahnútur: Hvað svo?
Nú um stundir er hávær krafa á Alþingi um að draga úr ójöfnuði, auka útgjöld og hækka skatta. Er það furðuleg krafa. Jöfnuður er mikill á Íslandi, raunar er tekjujöfnuður mestur hér meðal þróaðra ríkja. Þó sú staða sé jákvæð að mörgu leyti hefur hún einnig sína vankanta en mikill jöfnuður getur dregið úr ábata af því að sækja sér aukna menntun.
Samkvæmt tölum Hagstofunnar er launalegur ávinningur þess að sækja háskólanám einna minnstur hér á landi meðal ríkja OECD, með öðrum orðum ráðstöfunartekjur vaxa minna með aukinni menntun á Íslandi en annars staðar. Krafan um aukin ríkis útgjöld réttlætist því varla af miklum ójöfnuði. Við erum líklega stödd á toppi hagsveiflunnar en þrátt fyrir það munu útgjöld ríkissjóðs vaxa um tugi milljarða króna árlega fram til ársins 2022 samkvæmt nýframlagðri fjármálaáætlun stjórnvalda.
Gangi það eftir þá verða útgjöld ríkissjóðs á föstu verðlagi hærri árið 2022 en á þensluárinu 2007. Þrátt fyrir að skattheimta hér sé mikil í bæði alþjóðlegum og sögulegum samanburði þá dugar hún rétt til að halda ríkissjóði réttu megin við núllið. Lítið má því út af bregða. Í stað þess að búa í haginn fyrir mögru árin, sem óhjákvæmilega munu koma, þá er treyst á lengsta hagvaxtarskeið Íslandssögunnar.
Útgjöld hins opinbera eru nær hvergi meiri en á Íslandi og þegar bakslag kemur í hagkerfið og tekjur minnka komumst við að því líkt og árið 2009 að útgjöldin eru tregbreytanlegri en tekjurnar. Hver ætlar þá að hneykslast á framúrkeyrslu fyrri ára?
Höfundur er Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.
Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 4. apríl 2017