Endahnútur: Heilbrigð skynsemi

Vorboðinn ljúfi, kosningaloforð stjórnmálamanna, heilsar okkur nú aldrei þessu vant að hausti með sínum fyrirheitum um aukin framlög frá skattgreiðendum til hinna ýmsu verkefna og málaflokka.

Um aukin framlög til heilbrigðismála ríkir líklega mesta sáttin, bæði meðal stjórnmálamanna og almennings, enda málaflokkur sem snertir okkur öll. Íslendingar vilja framúrskarandi heilbrigðisþjónustu aðgengilega öllum og kemur sá vilji oftast fram í kröfu um aukin fjárframlög þegar okkur finnst þar pottur brotinn. Fjárframlög hafa verið aukin á síðastliðnum árum til heilbrigðismála og umfram aðra málaflokka hjá hinu opinbera.

Á það hefur verið bent að framlag hins opinbera til heilbrigðismála sé lágt í alþjóðlegum samanburði og við séum því eftirbátur annarra þjóða í þeim efnum. Er það rétt svo langt sem það nær en hafa ber í huga að meðalaldur hér er töluvert lægri en í nágrannaríkjum og á komandi árum er fyrirséður mikill kostnaðarauki eftir því sem þjóðin eldist.

Ef leiðrétt er fyrir aldurssamsetningu eru útgjöld til heilbrigðismála nefnilega há samanborið við nágrannaríkin. Því er þó ekki að leyna að heilbrigðiskerfið glímir við vanda, heilsugæslustöðvar þarf að efla, biðlista þarf að stytta og bæta þarf aðbúnað á Landspítalanum. Það er hins vegar skammsýni í því fólgin að nefna einungis aukin fjárframlög sem lausn þegar helstu sóknarfærin liggja augljóslega í aukinni skilvirkni og betri nýtingu þess fjármagns sem frá skattgreiðendum kemur.

Höfundur er Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 6. október 2016