Endahnútur: Er betur heima setið?

Öll getum við verið sammála um að launamunur vegna kynferðis á ekki að líðast á Íslandi. Ef grunur leikur á að hann sé til staðar þá getum við verið ósammála um leiðirnar sem taka á þeim vanda.

Til stendur að leggja fram frumvarp um lögfestingu jafnlaunastaðalsins en í því felst að ríflega 1.200 fyrirtæki verða skikkuð til að taka upp vinnubrögð sem krafist er í staðlinum. Engin önnur þjóð hefur farið þessa leið og hvergi í heiminum eru staðlar lögfestir.

Þó að launajafnrétti sé göfugt markmið þá er jafnlaunavottun kostnaðarsamt og flókið ferli og rétt að staldra við og spyrja sig hvort hún muni skila tilætluðum árangri.

Það hversu litla umræðu meginniðurstöðurskýrslu Velferðarráðuneytisins frá 2015 hefur fengið er því umhugsunarefni. Þar segir m.a.:

  • Óútskýrður launamunur mælist 5,7% en í skýrslunni er skýrt tiltekið að varlega skuli fara í að túlka þá niðurstöðu sem hreina launamismunun. Tölfræðin nái aldrei yfir allar breytur sem ákvarða laun einstaklinga.
  • Launamunur milli kynja hefur minnkað og er mun meiri hjá eldri kynslóðinni en þeirri yngri. Af þessu er ályktað að launamunurinn muni minnka á næstu árum. 
  • Meginorsök launamunar kynjanna er kynskiptur vinnumarkaður. Mennta- og starfsval kynjanna skiptir þar mestu.

Þar höfum við það. Við erum á réttri leið, óútskýrður launamunur, sem ekki er hægt að álykta að sé vegna kynferðis, hefur minnkað. Sá launamunur sem mælist kemur fyrst og fremst til vegna mennta- og starfsvals kynjanna.

Jafnlaunavottun innan fyrirtækja mun engin áhrif hafa á kynbundinn vinnumarkað og einungis skapa aukinn kostnað sem að lokum er borinn af neytendum og launþegum. Er mögulega betur heima setið en af stað farið?

Höfundur er Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 23. febrúar 2017