Endahnútur: Dagur hinna háu vaxta
Síðastliðið ár hefur húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað að meðaltali um ríflega 20% og virðist fátt benda til annars en að áfram muni það hækka. Einkum er það skortur á húsnæði sem knýr áfram þessar verðhækkanir en gert er ráð fyrir að í dag skorti fjögur þúsund íbúðir á höfuðborgarsvæðinu til að mæta væntri eftirspurn.
Ástæður þessarar stöðu blasa við, of lítið hefur verið byggt og of fáum lóðum úthlutað. Einkum er það stærsta sveitarfélagið, Reykjavík, sem hefur sofið á verðinum. Þótt þétting byggðar geti verið góðra gjalda verð þá virðist á sama tíma hafa gleymst að byggja þarf fasteignir fyrir borgarbúa.
Þrátt fyrir að samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur sé miðað við að árleg þörf sé um 800 íbúðir voru einungis um 300 íbúðir byggðar þar að meðaltali árin 2009-2016. Það hefur því lengi legið fyrir hvert stefndi og ítrekað varað við væntum framboðsskorti. Þó að frá borginni berist fyrirheit um að auka framboð á komandi árum þá er það of lítið og of seint. Taka mun tíma að byggja þær eignir sem upp á vantar og svo lengi sem framboð dugar ekki til að mæta eftirspurn almennings eftir húsnæði þá mun fasteignaverð hækka.
Aðgerðarleysi borgaryfirvalda hefur afleiðingar umfram þær að gera fólki erfiðara fyrir að koma þaki yfir höfuðið. Verðhækkanir húsnæðis er meginkrafturinn í þeirri verðbólgu sem er til staðar en verðbólga án áhrifa húsnæðisverðs er engin. Ef ekki væri fyrir þessar hækkanir væri hér 1,8% verðhjöðnun.
Hefði borgin brugðist við fyrr er ólíklegt að húsnæðisverð hefði hækkað um tugi prósenta heldur fremur fylgt launaþróun og hækkað um 8% á ári. Í slíku árferði má ætla að stýrivextir Seðlabankans væru ekki 4,75% heldur mörgum prósentum lægri. Slíkt hefði liðkað fyrir íbúðarfjárfestingu og stutt við uppbyggingu á þeim lóðum sem Reykjavíkurborg hefði betur úthlutað.
Höfundur er Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.
Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 22. maí 2017