Aukinn kaupmáttur knýr hagvöxt síðasta árs
Hagvöxtur mældist 1,9% á síðasta ári samanborið við 3,6% á árinu 2013. Hann var að þessu sinni að mestu drifinn áfram af innlendri eftirspurn, einkum fjárfestingu, en fara þarf aftur til ársins 2006 til að finna viðlíka vöxt þess liðar. Þetta kemur m.a. fram í nýrri umfjöllun efnahagssviðs SA.
„Tölur Hagstofunnar eru um margt áhugaverðar, í fyrsta lagi endurmetur Hagstofan tölur til verulegrar hækkunar fyrir 3F 2014 og í öðru lagi kemur á óvart hversu mikið innlend eftirspurn óx yfir árið, einkum vegna vaxtar á síðasta fjórðungi ársins eða um ríflega 8% milli ára.
Heimild: Hagstofa Íslands
Mikill vöxtur innlendrar eftirspurnar helst í hendur við aukinn kaupmátt
Ánægjulegt er að sjá að af undirliðum innlendrar eftirspurnar er fjárfesting helsti drifkraftur hagvaxtar að þessu sinni, en fjárfesting hefur verið í sögulegu lágmarki um þónokkurt skeið. Síðustu ár hafa fjárfestingar ekki dugað fyrir afskriftum þannig að gengið hefur á fjármunaeign landsins, en forsenda þess að fjárfesting skili aukinni framleiðslugetu er að fjármunaeign taki að vaxa á ný. Einkaneysla leggur einnig töluvert til hagvaxtar og óx um 4% milli ára, slíkur vöxtur helst í hendur við aukinn kaupmátt heimila, minnkandi atvinnuleysi og aukna bjartsýni á efnahagshorfur. Af þeim liðum sem hafa neikvæð áhrif á hagvöxt hefur utanríkisverslun nokkuð gefið eftir. Mikill vöxtur innlendrar eftirspurnar helst í hendur við aukinn innflutning og því kemur ekki á óvart að innflutningur óx um 10% á milli ára. Á sama tíma jókst útflutningur að raungildi um aðeins 1,8%.
Heimildir: Hagstofa Íslands og útreikningar efnahagssviðs
Mikill vöxtur innlendrar eftirspurnar er nátengdur auknum kaupmætti heimila. Litið til þróunar launavísitölu, leiðréttri fyrir verðbólgu, þá var kaupmáttaraukning á árinu 2014 um 5,7% og hefur ekki mælst meiri frá aldamótum. Aukinn kaupmáttur skapar eðlilega svigrúm til aukinnar neyslu og endurspeglast það greinilega í nýbirtum tölum Hagstofunnar.
Heimild: Hagstofa Íslands
Endurskoðun á 3F 2014: Talsverður munur á 1. og 2. birtingu
Hagstofan endurmat verulega hagvaxtartölur 3. ársfjórðungs 2014, en í bráðabirgðatölum hagstofunnar sem birtust í desember sl. kom fram að hagkerfið hefði dregist saman um 0,2%. Tölurnar komu á óvart þegar þær voru birtar ekki síst í ljósi þess að flestir hagvísar bentu til þess gagnstæða, að hagkerfið væri ekki að skreppa saman heldur þvert á móti að vaxa nokkuð kröftuglega. Hagstofan endurskoðaði nú landsframleiðslutölur fyrir þriðja ársfjórðung til hækkunar, í stað 0,2% samdráttar á landsframleiðslu mælist nú hagvöxtur upp á 1,7% í þeim fjórðungi.
Heimild: Hagstofa Íslands
Jákvæðar hagtölur skapa ákjósanleg skilyrði til afnáms hafta
Íslenskt efnahagslíf virðist að mörgu leyti í nokkuð góðu jafnvægi um þessar mundir. Atvinnuleysi hefur minnkað, verðbólga er undir einu prósentustigi, gengi krónunnar er stöðugt, afgangur er á viðskiptajöfnuði og afkoma ríkissjóðs er réttu megin við núllið. Í raun svipar flestum hagtölum til ársins 2003 þegar færa má rök fyrir því að hagkerfið hafi síðast verið í jafnvægi. Hagvaxtartölurnar sem birtust í morgun eru enn ein vísbendingu um góða stöðu hagkerfisins.
Meginmunurinn á árinu 2003 og stöðunni í dag er að það jafnvægi sem við höfum náð í dag er innan hafta. Jákvæðar hagvaxtartölur og jákvæð þróun annarra hagtalna endurspegla ekki síður hversu góð skilyrði eru fyrir því að stigin verði stór og ákveðin skref til afnáms hafta. Vonandi er tíðinda að vænta í þeim efnum á komandi vikum.“
Heimild: Hagstofa Íslands, útreikningar efnahagssviðs