Áratugur í höftum
Nú eru tíu ár liðin frá því að Íslendingar endurnýjuðu kynni sín af fjármagnshöftum eftir 13 ára aðskilnað. Í nóvember 2008 voru sett á fjármagnshöft til að sporna gegn útflæði fjármagns og koma þannig í veg fyrir enn frekari veikingu íslensku krónunnar. Þau höft voru afnumin með góðum árangri í mars 2017. Áður en til þess kom voru hins vegar sett á önnur höft, svokölluð innflæðishöft. Þau eru enn til staðar. Innflæðishöftin kveða á um að 40% bindiskylda á vaxtalausum reikningi sé á nýju erlendu fjármagni sem fjárfest er í íslenskum skuldabréfum. Seðlabankinn hefur rökstutt þau meðal annars með því að takmarka þurfi flæði erlends fjármagns til landsins til að styrkja vaxtamiðlun peningastefnunnar.
Höft stuðla að hærra vaxtastigi og draga úr fjárfestingu og verðmætasköpun sem bitnar á hagsæld landsmanna.
Að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er ekki skynsamlegt að beita fjármagnshöftum við framkvæmd peningastefnu. Þau ættu að vera þjóðhagsvarúðartæki sem ætti einungis að beita í neyð. Þau ættu að vera tímabundin og ekki að gegna lykilhlutverki í almennri hagstjórn. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur verið afdráttarlaus í afstöðu sinni gegn innflæðishöftunum á Íslandi en sjóðurinn telur aðstæður á Íslandi ekki réttlæta beitingu þeirra. Sebastian Edwards og Kristin Forbes, ráðgjafar starfshóps um endurskoðun peningastefnunnar, taka bæði undir afstöðu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í skýrslum sínum. Þau telja veik rök fyrir viðvarandi beitingu innflæðishafta og efast um að ástæða hafi verið til að koma þeim á þar sem innflæði erlends fjármagns hafi ekki verið af þeirri stærðargráðu að það hafi vegið að fjármálastöðugleika.
Íslensku innflæðishöftunum svipar til þeirra hafta sem voru í Síle 1991-1998 þótt útfærslan sé heldur stífari á Íslandi. Fyrrnefndir ráðgjafar draga í skýrslum sínum fram helstu niðurstöður erlendra rannsókna af reynslu Síle af innflæðishöftum. Niðurstöðurnar eru þær að seðlabanki Síle hafi viðhaldið hærra vaxtastigi en ella vegna haftanna og að þau hafi bitnað sérstaklega á litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Þau áttu erfiðara en stærri fyrirtæki með að fjármagna sig erlendis og liðu því fyrir minna framboð lánsfjármagns og því hækkaði fjármagnskostnaður. Höftin höfðu því neikvæð áhrif á fjárfestingu og verðmætasköpun í hagkerfinu.
Flest íslensk fyrirtæki flokkast sem lítil og meðalstór fyrirtæki og má því færa heim sanninn um að innflæðishöftin hækki fjármagnskostnað íslenskra fyrirtækja. Ástæðan er einföld; höftin draga úr framboði fjármagns. Þá leiða sömu kraftar til þess að grunnvextir á skuldabréfamarkaði hækka og vaxtakostnaður fyrirtækja og heimila. Tilkoma haftanna hefur því gert Seðlabankanum kleift að viðhalda hærra vaxtastigi og um leið dregið úr framboði af lánsfé og aukið fjármagnskostnað heimila og fyrirtækja.
Höft hafa verið hluti af íslenskri peningastefnu í áratug. Óvenju stíf innfæðishöft hafa tekið við af útflæðishöftum. Það er varasamt að ætla að stýra hagkerfi með höftum. Það er í ósamræmi við bestu aðferðir í hagstjórn og kostnaðarsamt hagkerfið í heild. Höft stuðla að hærra vaxtastigi og draga úr fjárfestingu og verðmætasköpun sem bitnar á hagsæld landsmanna. Á komandi misserum þurfa Íslendingar að aðlaga sig að breyttum veruleika. Fjölgun ferðmanna hefur minnkað hratt og væntingar stjórnenda og heimila bera það með sér að mjög hægi á vexti íslensks hagkerfis. Við slík tímamót er mikilvægt að ekki séu hindranir í vegi þeirra sem vilja fjárfesta á Íslandi og skiptir þar engu ríkisfang þess sem hér sjá tækifæri og vill koma þeim í framkvæmd. Vonandi fá ráðleggingar erlendra sérfræðinga hljómgrunn og bæta stjórnvöld hið fyrsta fjárfestingarumhverfi innanlands með afnámi innflæðishafta. Höftum skal aðeins að beita í neyð sem er ekki til staðar.
Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA.
Greinin birtist í ViðskiptaMogganum 28. júní 2018